Vorljóð

Vorljóð

Í lofti er vor en í jörðu er kuldi og klaki,
Konungur Vetur er okkur að þjaka og pína,
einræðis krefst fyrir sig og ríkisstjórn sína,
samt ber að vona að hann sé að mestu að baki.

Þótt dagur sé bjartur er dimma í sálnanna hreysi
því dagur er þrotinn en við því er ekkert að gera.
Á „andlegum farsóttum“ byrjar nú aftur að bera.
Þær birtast oss helst í krónísku náttúruleysi.

En vorgyðjan svífur á sólgylltum vængjum um geiminn
(og sama er oftast af Gylfa og Emil að frétta).
En viðreisnarleiðin er upplýst með alúmínbirtu.

Með áli og kísilgúr höfum við gersigrað heiminn
en höfum þó af okkur skyrtuna látið pretta.
En hvað munar okkur um eina helvítis skyrtu?

(Maí 1966)