Foreldrar og æska Steinunnar langömmu
Í manntalinu 1845 sést að á Kerhóli í Sölvadal í Eyjafirði hafi búið hjónin Bárður Ásmundsson (1793-1873), 52 ára, og Steinunn Ólafsdóttir (1781-1867), 65 ára, ásamt syni þeirra Sigurði Bárðarsyni (1821-1876), 25 ára, og konu hans Arnbjörgu Jónsdóttur (1819-1872), 26 ára. Bárður var fæddur á Tjörnum 1793, sonur Ásmundar Sigurðssonar og Margrétar Halldórsdóttur sem bjuggu í Ytri-Villingadal 1801, á Strjúgsá 1816 og Hólakoti á ofanverðum 3. áratugnum. Steinunn var fædd á Rifkelsstöðum, dóttir Ólafs Magnússonar smiðs og bónda og Þórunnar Pálsdóttur en Ólafur var gjarnan kenndur við Rifkelsstaði í Eyjafirði en síðast bjó hann í Kálfagerði. Ólafur eignaðist 3 börn með þremur konum fyrir hjónaband og síðan 8 börn með Þórunni konu sinni. Sjö þeirra lifðu og eignuðust afkomendur og út frá Ólafi og barnsmæðrum hans er kominn gríðarstór afkomendahópur.
Stefán Aðalsteinsson segir svo frá í Eyfirðingabók að Steinunn hafði verið vinnukona í Stóradal og átt þá dóttur í lausaleik með Páli Bjarnasyni bónda í Leyningi. Dóttirin var nefnd Sigríður. Steinunn var með hana hjá foreldrum sínum í Kálfagerði þegar hún tók saman við Bárð. Allir þessir bæir eru framarlega í Eyjafirði nema Rifkelsstaðir.
Þegar gifting þeirra Bárðar og Steinunnar er skráð 2. maí 1820 er hann nefndur yngissveinn en hún kvensnift og vill Stefán meina – og líklega ekki að ófyrirsynju – að í þessu orðbragði prestsins felist „einhver óbeit á konunni, kannski fyrir þetta barneignarbrot hennar“. Ekkert bendir þó til annars en að Steinunn hafi verið mesta afbragðskona enda hefur Steinunnarnafnið prýtt marga afkomendur hennar, raunar ekki aðeins allar Steinunnirnar heldur eru líka dæmi um karlmenn sem hafa heitið Steindór eftir einhverri Steinunninni.
Bárður flutti brúði sína niður á Kotá sem þá var býli fyrir ofan Akureyri „og hóf þar hokur sitt,“ eins og Stefán segir, og þar fæddist Sigurður 1821. Bárður og Steinunn bösluðu á Kotá í 2 ár, 1820-1822, og guldu þá 16 fiska í útsvar sem var það langlægsta í öllum Hrafnagilshreppi. Virðast þau hafa flosnað upp og vera lítið við búskap riðin á næstu árum. Þau fóru í vinnumennsku út í Hörgárdal 1822, voru í Dagverðartungu og á Björgum til 1825. Þeim skýtur aftur upp í Hólakoti þar sem foreldrar hans bjuggu þá. Þar bjuggu þau 1825 – 1831 og eignuðust þar og misstu dótturina Margréti en fluttust síðan í Kerhól í Sölvadal þar sem þau bjuggu í 27 ár eða allt til 1858 að þau brugðu búi. Þau höfðu ætíð barist í bökkum en þó átt sæmilegt bú á Kerhóli. Sigurður sonur þeirra ólst upp hjá þeim til fullorðinsaldurs, fermdist árið 1835 og var þá „ekki óskikkanlegur, rétt sæmilega að sér“. Bárður og Steinunn áttu auk Sigurðar tvær dætur sem báðar dóu barnungar. Margrét móðir Bárðar var hjá þeim Steinunni til æviloka 1843 en annars var jafnan fátt í heimili á Kerhóli.
Bárður og Steinunn voru í húsmennsku á nokkrum bæjum eftir að þau létu af búskap, voru m.a. í Kálfagerði en þaðan fóru þau að Hólum 1864, hann 71 árs en hún 83. Á árinu 1867 fóru þau frá Hólum í Æsustaði til Sigurðar sonar síns og Arnbjargar og þar dó Steinunn sama ár úr ellilasleika og umgangskvefi 86 ára gömul. Á Æsustöðum var Bárður áfram síðustu æviárin hjá Sigurði og Arnbjörgu og þar dó hann einnig 1873 „úr ellikröm,“ 81 árs að aldri.
Stefán Aðalsteinsson segir í Eyfirðingabók að Bárður hafi þótt nokkuð forn í skapi og „trúði á ýmis tákn í messum og himintunglum“. Hann þekkti hina alkunnu vísu:
Ef í heiði sólin sést
á sjálfri Kyndilmessu,
snjóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu.
Sr. Jónas Jónasson segir í Íslenskum þjóðháttum, bls. 133: „Bárður Ásmundsson í Hólakoti í Eyjafirði ... trúði fast á þetta, eins og margir fleiri, og var alltaf að fara út á Kyndilmessu að gá til veðurs; og einu sinni þegar hann kom inn var hann bæði hryggur og reiður, kvaðst hafa séð „einn bölvaðan sólskinsblett í Kerlingu“.“
Fyrrgreind dóttir Steinunnar, sem hún eignaðist með Páli Bjarnasyni í Leyningi, var Sigríður (1813-1898) fædd í Stóradal en Páll þessi var lausgirtur, átti 5 börn með tveimur eiginkonum og 3 með þremur öðrum konum. Sigríður ólst upp hjá móður sinni og foreldrum hennar í Kálfagerði þangað til Steinunn tók saman við Bárð en eftir það hefur hún líklega farið í Leyning til föður síns sem þar bjó. Altént var hún í Leyningi hjá föður sínum á árunum 1832-1836, reyndar líka skráð til heimilis á Kerhóli 1835. Í Leyningi var líka í heimili ógiftur eldri bróðir Páls, Jón Bjarnason. Með þessum föðurbróður sínum eignaðist Sigríður son, Jón Jónsson (1834-1912), en reyndar lék grunur á að faðirinn væri Páll sjálfur og fyrir vikið var Jón þessi Jónsson stundum kallaður „afason“ og hefði því verið fjórða barn Páls utan hjónabands. Í kirkjubók var Jón samt skráður Jónsson og engin athugasemd önnur en að þetta væri „beggja fyrsta brot“, ekkert sagt um að Jón væri föðurbróðir Sigríðar sem hljóta þó að hafa verið refsiverð sifjaspell. Hjá þeim bræðrum í Leyningi var Sigríður þó áfram skráð til heimilis í tvö ár eftir að barnið fæddist en hún fór síðan til móður sinnar í Kerhól 1836 og eignaðist þar annan son, Sigurð (1837-1905), en nú með Jónasi Jónssyni frá Finnastöðum sem þá var ógiftur vinnumaður á Ánastöðum.
Þegar Sigríður Pálsdóttir var vinnukona á Gilsbakka í Hrafnagilshreppi kynntist hún vinnumanni á næsta bæ, Möðrufelli, en sá hét Sigurður Kristjánsson (1821-1858). Þau fluttust vestur á Þelamörk um 1839 og þar voru þau vinnuhjú á Ytri Bægisá þegar þau giftust 1840. Árið eftir fæddist þeim dóttir, Steinunn Helga (1841-1884). Þau fluttu síðan í Skóga á Þelamörk, síðan yfir ána að Lönguhlíð 1846 þar sem Sigurrós (1846-1938) fæddist, í Þverbrekku 1849 og loks í Geirhildargarða þar sem Anna Sigríður (1855-1920) fæddist 1855, „Anna stóra“ eins og hún var síðar kölluð. Hún var húskona í Garðshorni nokkur ár eftir 1910. Á Geirhildargörðum bjuggu þau Sigríður og Sigurður þangað til Sigurður lést 1858 en Sigríður bjó þar áfram með börnum sínum til 1871. Jón Jónsson, sonur hennar, hafði komið þangað til móður sinnar um 1855. Hvorki Steinunn Helga, Sigurrós né Anna Sigríður eignuðust börn sem komust upp svo vitað sé en Jón „afason“ var tvígiftur og átti þrjú börn og eitt þeirra jók kyn sitt. Greinarhöfundur kannast ekki við neinn afkomanda hans.
Hinsvegar eru ýmis þekkt nöfn meðal afkomenda Sigurðar Jónassonar, sonar Sigríðar Pálsdóttur, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa á Kerhóli fram yfir fermingu 1851. Hann fluttist til móður sinnar „norður í Öxnadal“ eftir 1860 og hafði þá náð sér í konu, Sigurjónu frá Dvergsstöðum í Eyjafirði. Þau eignuðust 10 börn og bjuggu á ýmsum kotum í Öxnadal og Hörgárdal og um tíma vestur í Norðurárdal og Blönduhlíð í Skagafirði. Meðal þeirra og elst var Sigurrós (1864-1938) konu Trjámanns bónda í Fagranesi. Sigurrós og Trjámann áttu m.a. Guðmund ljósmyndara á Akureyri sem var afi Guðmundar Ólafssonar fornleifafræðings. Sigurrós og Trjámann áttu líka Sigrúnu Jónínu móður Harðar Zophoníassonar skólastjóra Víðistaðaskóla sem var faðir Ólafs Þ. stjórnmálafræðings og Tryggva bæjarstjóra á Seyðisfirði og víðar. Sigrún eignaðist í seinna hjónabandi m.a. þá Jósef og Magnús Tryggvasyni frá Þrastarhóli. Önnur dóttir Sigurrósar og Trjámanns var Sigríður Steinunn sem giftist lagasmiðnum skagfirska, Jóni Björnssyni, og var amma Sigríðar Steinbjörnsdóttur íslenskukennara í MA.
Annað barn Sigurjónu og Sigurðar Jónassonar frá Kerhóli var Baldvin bóndi í Hálsi í Öxnadal og síðar á Naustum sem giftist Helgu systur Brynjólfs í Efstalandskoti en þau voru afi og amma Magnúsar Ólafssonar heilsugæslulæknis á Akureyri og Baldvins H. Sigurðssonar veitingamanns og um tíma bæjarfulltrúa á Akureyri. Þriðja barn Sigurðar og Sigurjónu var Steinunn Sigríður móðir Sigurðar Guðmundssonar prests á Grenjaðarstað og vígslubiskups á Hólum, föður m.a. Steinunnar upplesara og Ragnheiðar bókavarðar í MA.
Nú hefur verið gerð nokkur grein fyrir Sigríði dóttur Steinunnar Ólafsdóttur frá Kerhóli og afkomendum hennar og nú víkur sögunni til hins barns hennar sem komst upp, Sigurðar sem hún átti með Bárði bónda sínum. Sigurður náði sér í konu, Arnbjörgu sem var frá Kambhóli í Arnarneshreppi, dóttur Jóns Jónssonar (1780-1862) bónda þar og Önnu Jónsdóttur (1786-1833) konu hans. Þau bjuggu á hluta Uppsala 1812-14 og síðan á Ytra-Kambhóli þangað til Anna lést 1833 en Jón bjó einn áfram til um 1846. Eftir það var hann vinnumaður hjá Hákoni Espólín presti í Stærra-Árskógi. Jón og Anna kona hans eignuðust átta börn sem komust upp, en af þeim eignuðust fjögur börn auk Arnbjargar, Rögnvaldur, Sigríður, Hólmfríður og Jóhann.
Rögnvaldur (1813-1850) var m.a. bóndi á Mýlaugsstöðum í Aðaldal og var forfaðir Óla Þórs Ragnarssonar lyfjafræðings á Dalvík og víðar.
Sigríður (1816-1895) bjó með manni sínum á ýmsum bæjum í Svarfaðardal og var formóðir m.a. Steinunnar Þórhallsdóttur Bækkeskov líffræðings í Bandaríkjunum. Sigríður var langamma Páls í Dagverðartungu og þeirra systkina og amma Aðalheiðar á Barká og þeirra systkina frá Skjaldarstöðum. Þannig voru Páll í Tungu og Sigríður í Glæsibæ þremenningar.
Hólmfríður (1820-1876) giftist út í Flókadal í Fljótum, átti átta börn en afkomendur eru ekki að sama skapi margir.
Jóhann (1823-1875) bjó á Auðnum í Svarfaðardal og var forfaðir m.a. Valtýs Hreiðarssonar háskólakennara á Akureyri, Birgis Marinóssonar bókhaldara og tónlistarmanns á Akureyri, Pálma Stefánssonar verslunar- og tónlistarmanns á Akureyri, Sólveigar Unu Jóhannesdóttur, konu Frímanns Guðmundssonar á Akureyri, Önnu Lilju Gestsdóttur konu Reynis Ólafssonar viðskiptafræðings í Keflavík, Gunnhildar A. Gunnlaugsdóttur þroskaþjálfa á Akureyri og bræðranna Sveinbjörns I. rithöfundar og Tryggva tónskálds Baldvinssona í Reykjavík.
Eftir þennan langa kafla um foreldra Sigurðar Bárðarsonar og afkomendur Sigríðar systur hans og loks um systkini Arnbjargar, konu hans, er nú komið að Sigurði sjálfum og afkomendum hans. Þegar manntalið var tekið 1845 voru þau Arnbjörg (1819-1872) og Sigurður (1821-1876) hjá foreldrum hans á Kerhóli og þá áttu þau dóttur á fyrsta ári eina barna en hún hét Steinunn Anna (1845-1928). Sigurður og Arnbjörg fluttu í Velli í Saurbæjarhreppi en Bárður og Steinunn bjuggu áfram á Kerhóli. Á Völlum fæddist dóttirin Margrét Cecilía eða Sesselía 1848 sem dó 8 ára og þar fæddist líka Hólmfríður 1850. Sigurður og Arnbjörg fluttu síðan í Æsustaði og þar fæddust hin börnin: Helga 1851, Bárður 1852, Kristján Frímann 1853, Anna Margrét 1857 og Haraldur 1858. Síðastur fæddist Jóhannes 1862. Sigurður og Arnbjörg voru ábúendur á einu af þremur býlum á Æsustöðum til ársins 1872 en þá lést hún, 53ja ára að aldri, og tveimur árum síðar brá Sigurður búi.
Þröngt hefur verið í búi hjá þeim Sigurði og Arnbjörgu því að Sigurður var með fátækustu bændum sveitarinnar framan af og jafnvel alla tíð. Ekkert barna þeirra var reyndar alið upp á sveitarframfæri, eins og algengt var þó á þessum tíma, en frá 1852 og næstu 10 árin þáði Sigurður styrki og lán frá hreppnum fjölskyldunni til matbjargar. Þetta var gert fremur en að leysa heimili upp ef sýnt þótti að sveitarstyrkurinn gæti orðið til þess að bændur gætu komið undir sig fótunum svo að börn þeirra yrðu ekki ómagar á sveitinni með enn meiri tilkostnaði fyrir sveitarsjóð eða fátækrasjóðinn eins og sveitarsjóðurinn var gjarnan nefndur. Styrkir og lán hreppsins til Sigurðar á Æsustöðum voru reyndar ekki háar upphæðir hverju sinni en engu að síður báru þessar aðgerðir árangur því að eftir þetta virðast þau hjónin hafa komist af hjálparlítið.
Sigurður átti samt ógreidda skuld við hreppinn næsta áratug en árið 1875, þegar hann flutti burt úr sveitinni, greiddi hann skuldir sínar við hreppinn, samtals 154 ríkisdali. Hann fór skuldlaus í gröfina ári síðar. Bú Sigurðar og Arnbjargar var eitt það minnsta í hreppnum og börnin mörg. Flest ólust upp í foreldrahúsum. Helga dóttir þeirra fór þó í fóstur að Halldórsstöðum 1856, að því er virðist til vandalausra, og þar ólst hún upp til a.m.k. 1870. Bárður fór fjögurra ára gamall í fóstur til afa síns og ömmu á Kerhóli en fluttist með gömlu hjónunum í Æsustaði 1858 þar sem þau voru eitt ár. Eftir það var hann á Æsustöðum.Til eru vísur eftir Svein Sveinsson – Sigluvíkur Svein – sem ortar voru 1873. Þær fjalla um heimilisfólkið á Æsustöðum. Þessar eru um heimili Sigurðar og Arnbjargar:
Á Æsustöðum er allmargt fólk,
allt lifir þar á kúamjólk.
Þar eru tjáðir þrír bændur,
þriðjungi jarðar ræður hvur.
...
Sigurður þriðja þriðjunginn
þrifinn vel hirðir verklaginn.
Arnbjörg hans kona æhvert sinn
ósérhlífin við búskapinn.
Þeirra son Kristján þægkynntur
hjá þjóðum jafnan fáorður.
Þar er hans Margrét systir svinn
selskap lífgandi björt á kinn.
Hennar er bróðir Haraldur,
harðskarpur nóg og listfengur.
Jóhannes þeirra yngstur er,
allmarga gripi smíðar sér.
Bárður að aldri áttræður
er þar og taldur húsmaður.
Þarna svo endar þulan mín,
þú mátt svo lesa hringalín.
Vísurnar eru úr fórum Hólmfríðar í Villingadal og þar eru vísurnar um heimilisfólkið á hinum búunum á Æsustöðum.
Arnbjörg lést 1872 á Æsustöðum, eins og áður segir, en Sigurður fluttist með Steinunni Önnu dóttur sinni og Guðmundi Sigfússyni í Hraungerði, hjáleigu frá Möðrufelli, og þaðan í Einarsstaði í Kræklingahlíð þar sem hann lést 1876, hálfsextugur, og var jarðaður í Glæsibæjarkirkjugarði. Bárður og Steinunn urðu háöldruð á þess tíma mælikvarða en yngri hjónin, Sigurður og Arnbjörg, dóu bæði á sextugsaldri.