Bjarni Þorláksson og fólkið hans

Bjarni Þorláksson og fólkið hans

Hér segir stuttlega frá foreldrum og systkinum Bjarna Þorlákssonar, eiginmanns Jónu Jónsdóttur. Ótímabært fráfall Bjarna og lítil tengsl ættmenna hans við Bolungarvík hafa orðið til þess að fólkið hans hefur lent í skugganum af skyldmennum Jónu langömmu og mest hafa tengsl mín og minna verið við ættingja Friðgerðar ömmu vegna tengsla Guðfinnu, móður minnar, við skyldfólkið í og frá Bolungarvík. Það hefur svo ekki bætt úr skák að Bjarni afi hafði lítil tengsl við föðurfólkið sitt. Þó verður ekki fram hjá því litið að Bjarni var langafi minn og systkini hans og afkomendur þeirra eru jafnmikið skyld mér og systkini og afkomendur Jónu langömmu. Hér sannast því hið fornkveðna að skyldleiki ræðst ekki bara af skyldleika heldur ekki síður af kynnum. Ættmenni Bjarna langafa hafa verið mér lokuð bók sem ég geri nú lítilfjörlega tilraun til að opna.

Faðir Bjarna hét Þorlákur Narfason[1] og var yngstur þriggja systkina sem ólust upp við sunnanverðan Dýrafjörð. Hin systkinin hétu Þorlaug og Björn. Faðir þeirra, Narfi Björnsson[2], féll frá á meðan börnin voru ung og eftir það var móðir þeirra, Guðleif Björnsdóttir[3], með elsta barnið, Þorlaugu[4], í vinnumennsku í Haukadal en Björn Narfason[5] var fyrst tökubarn á Múla en síðan hjá Ragnheiði[6] föðursystur sinni á Ketilseyri. 

Þorlákur ólst upp hjá hreppstjóranum í Hvammi eða Lægra-Hvammi en fór sem uppkominn til Ragnheiðar á Ketilseyri. Þangað var Guðleif líka komin árið 1850 og þar létust bæði hún og Björn sonur hennar 1853 með fárra vikna millibili, hún í landfarsótt en hann úr „steinsótt“ sem mun vera fólgin í því að nýrnasteinar stífla þvagrás. 

Sjálfur hef ég fengið nýrnasteinskast oftar en einu sinni og þótt kvalafullt en þó skárra eftir að ég heyrði konu segja að nýrnasteinskast sé mun kvalafyllra en barnsburður. En hvað um það, eflaust hefur enginn kunnað „að skera til steins“ á þessum tíma í Dýrafirðinum né annarstaðar þar vestra síðan Hrafn Sveinbjarnarson var og hét í Arnarfirðinum 700 árum áður. Hann var nýrnasteinsskeri á heimsmælikvarða.

Þorlaug Narfadóttir giftist Andrési nokkrum Halldórssyni en þau bjuggu lengst á Bakka en börn þeirra í Meðaldal, Brautarholti og víðar við sunnanverðan Dýrafjörðinn. Sem fullorðinn maður færði Þorlákur bróðir hennar sig hinsvegar norður í Djúp og var vinnumaður á ýmsum bæjum við Skötufjörð, m.a. á Hjöllum hjá Friðgerði, síðar mágkonu sinni, þar sem hann tók saman við Þórunni Hafliðadóttur[7] og þar fæddist fyrsta barn þeirra.

Þórunn var dóttir Hafliða Hafliðasonar[8] sem fæddist í Önundarfirði og Helgu Jóhannes­dóttur[9] sem var innan úr Vatnsfjarðarsókn við Djúp. Hafliði og Helga bjuggu á Borg í Skötufirði og þar eignuðust þau fimm dætur sem allar ólust þar upp en það bendir til að afkoma heimilisins hafi verið bærileg. Sigríður[10] var elst og giftist suður í Borgarfjörð þar sem hún bjó með Þorsteini Þórðarsyni á Grenjum á Mýrum. Friðgerður[11] var næstelst, hún giftist Jóhannesi Andréssyni en þau hófu búskap með foreldrum hans á Hjöllum í Skötufirði þar sem Þórunn systir hennar og Þorlákur Narfason voru vinnuhjú. Jóhannes dó tæplega þrítugur en Friðgerður fór þá sem húskona heim í Borg ásamt dóttur sinni, Jóhönnu Maríu. Hún giftist Ara Rósinkars­syni og tók með honum við búi á Borg og þegar fram liðu stundir bjuggu þar einnig dóttir hennar og tengdasonur.

Þórunn var þriðja í röðinni og kemur mest við þessa sögu sem móðir Bjarna Þorlákssonar. Segjum frá henni síðar.

Guðríður[12] hét fjórða systirin. Hún var seinni kona Þórðar Magnússonar í Hattardal meiri í Álftafirði og bjó þar síðast með Helgu, móður sína, hjá sér en þau Þórður fluttu til Vesturheims 1893 eftir lát Helgu. Með þeim fluttu þrjú börn þeirra en Kristján sonur þeirra varð eftir og bjó í Bolungavík á Ströndum. Yngsta systirin frá Borg hét Jóhanna Kristín[13] og var seinni kona Hafliða Rósenkranssonar en þau bjuggu á Kleifum og Garði í Skötufirði og e.t.v. víðar.

Systrahópurinn frá Borg einkenndist af heilindum og samheldni eins og sjá má af því að börn Þórunnar Hafliðadóttur áttu athvarf hjá móðursystrum sínum og þeirra fólki þegar á bjátaði. Sigríður Hafliðadóttir tók Ólaf Þorláksson, son Þórunnar og bróður Bjarna langafa, í fóstur. Þorbjörg Þorláksdóttir leitaði athvarfs hjá Friðgerði Hafliðadóttur, móðursystur sinni, eftir að hún eignaðist barn með húsbónda sínum suður í Dýrafirði og hrökklaðist að heiman. Dóttir Margrétar Þorláksdóttur fór í fóstur til systursonar fyrri manns Friðgerðar.

Hér á eftir verður lítillega hugað að systkinum Bjarna langafa og afkomendum þeirra með því að lesa minningargreinar og skoða manntöl, sóknarmannatöl og prestþjónustubækur. Bjarni var úr hópi sjö systkina, fjögur þeirra lifðu lengi. Öll eignuðust börn og frá þeim er kominn urmull afkomenda sem ég kannast yfirleitt ekkert við og það sem meira er, afkomendur annars bræðranna kannast ekki mikið hver við annan. Ég hafði samband við barnabarn hans sem þekkti varla systkini sín og virtist ekki hafa mikinn áhuga á þeim.

 

 

[1] Þorlákur Narfason f. 23. 2. 1832, d. 8. 8. 1887
[2] Narfi Björnsson f. 26. 3. 1795, d. 12. 2. 1874
[3] Guðleif Björnsdóttir f. 1796, d. 9. 7. 1953
[4] Þórlaug Narfadóttir f. 16. 1. 1827, d. 8. 1. 1864
[5] Björn Narfason f. 1830, d. 30. 7. 1853
[6] Ragnheiður Björnsdóttir f. 25. 3. 1799, d. 12. 2. 1874
[7] Þórunn Hafliðadóttir f. 16. 6. 1835, d. 28. 5. 1916
[8] Hafliði Hafliðason 6. 11. 1808, d. 4. 8. 1858
[9] Helga Jóhannesdóttir f. 22. 6. 1810, d. 1. 2. 1886
[10] Sigríður Hafliðadóttir f. 25. 6. 1833, d. 20. 1. 1918
[11] Friðgerður Hafliðadóttir f. 8. 6. 1834, d. 26. 6. 1917
[12] Guðríður Hafliðadóttir f. 18. 11. 1840, d. 13. 1. 1902
[13] Jóhanna Kristín Hafliðadóttir f. 1842, d. 19. 3. 1904