Úr sóknarlýsingu Hólssóknar í Eyjafirði
eftir sr. Jörgen Kröyer
Fjórar ástæður fyrir óáran um 1840
1ta: undanfarin hörð ár og grasbrestur svo menn hafa neyðst til að farga bjargræðispeningi fram yfir venju og jafnvel þurft að kaupa fóður handa skepnum svo sem hafra, bygg og korn í kaupstöðum sem víða var til bragðs tekið veturinn 1835 vegna hvers margur fór venju framar í skuldir og munu nokkrir enn að því búa.
Af vorharðindum og gróðurleysi flýtur ogsvo að menn hafa séð fyrir enda á því gagni sem margur hafði af kálgarða- og jarðeplarækt og allt tjón á málnytupeningi og gagnsmunum skepna yfirhöfuð, 2ur orsökin er ofþrengsli sem orðin eru vegna fólksfjöldans því hver treður annan undir hvar við öll manndáð minnkar eftir því sem öreigabændur og fjölskyldufólk fjölgar meir. Því þar sem áður bjó einn gildur bóndi á sætilegri jörðu eru nú 2 og 3 og 4 einvirkjar, sumir við og sumir á hrepp vegna ómegðar og örbirgðar því bjargræðisvegirnir fjölga ekki og lendurnar færast ekki til þótt fólkið fæðist og giftist. Og þegar sumir þessir öreigar komast upp á það að taka allt af sveitinni, það sem þeir við þurfa, láta þeir sér hvergi annt með dugnaði og atfylgi að hjálpa sér.
Ekki bætist heldur úr vinnufólksskortinum þó fólkið sé margt orðið því óðara en það elst upp vill það eiga með sig sjálft, byrja búskap og komast í hjónaband, sem vonlegt er þegar engin fyrirstaða er á giftingunum, tekur það svo saman bláfátækt ef einhver fæst jarðarpartur, fjölgar börnum og verður á fáum árum aftur komið upp á sveitarstyrk og er orðið hreppshandbendi, hafi það getað ílengst 5 ára tíma í hreppnum; giftist líka stundum í öðrum hreppum og er svo gert vegalaust og rekið til baka með konum og börnum á þá sveit, hvaðan það kom, hafi það að nafninu þjónað í vist tiltekinn áratíma. Þetta má víst telja ena 3ðju orsök til almennra vandræða í búskapnum því enginn býr til lengdar án vinnufólks eða án þess að jarðir séu duglega setnar og skil goldin með því sem kaupgjald hjúa vegna eklunnar er uppsprengt orðið fram yfir forna landsvenju.
Hér af kemur að margir, sem öðruvísi geta af komist, bregða búskap og koma sér fyrir á kostnaðarminni og hagkvæmari hátt en bláfátækir frumbýlingar taka aftur jarðirnar með þungum kjörum. Og sú er hin 4ða orsök sem gjörir mörgum bjargálna landseta þröngt uppdráttar að flestar jarðir eru orðnar ærið dýrt leigðar, hverju utan allt þetta skapa margar óþarfar nauðsynjar leikinn þar sem margur fer þess nauðsynlegasta á mis vegna þess er hann gæti vel án verið og efni hans ekki leyfa.
Athugasemdir G. Fr. við pistil sr. Jörgens:
Þessum kafla séra Jörgens er bætt hér inn í til að reyna að skýra aðstæðurnar sem þetta fólk bjó við. Óáranin sem séra Jörgen fjallar hér um hefur væntanlega lýst sér í fjölgun þurfamanna sem eru raunar merkilegt fyrirbæri í sögu lands og þjóðar. Fátækraframfærsla í einhverri mynd hafði þekkst í landinu um ómuna tíð, líklega áður en kristni var lögtekin. Framkvæmd framfærslunnar var falin hinu veraldlega valdi, hreppunum sem þegar í lok 11. aldar voru orðin sérstök framfærsluhéruð, ólíkt því sem gerðist á meginlandi Evrópu þar sem kirkja og klerkar önnuðust þau mál lengi fram eftir öldum. Í Jónsbók frá 1280 voru ákvæði um framfærslu fátækra sem héldust að mestu óbreytt fram til 1834. Fjórðungur tíundarinnar, sem var eignaskattur, rann til fátækra. Lengi vel var það hlutverk hreppstjóra að skipta þurfamannatíundinni milli fátækra í hreppnum en 1781 var allt vald í framfærslumálum fært til sýslumanna. Hreppstjórar sáu reyndar áfram um framkvæmdina en nú í umboði sýslumanns. Þessi skipan hélst til 1872 en eftir það sáu hreppsnefndir um framfærslu þurfamanna og kusu stundum sérstaka fátækrastjóra úr sínum hópi til að sjá um þetta verkefni.
Frá fornu fari hvíldi framfærsluskylda á skyldmennum. Hjón áttu að framfæra hvort annað. Þau áttu að sjá fyrir foreldrum sínum og börnum, systkinum og nákomnum ættingjum. Þegar framfærslugeta einstaklinganna þraut tók hreppurinn við og skyldi framfæra þurfamann í þeim hreppi þar sem nánasti ættingi hans (þó eigi fjarskyldari en þremenningur) var heimilisfastur. Með fátækrareglugerð árið 1834 var framfærsluskylda fjarskyldra ættmenna takmörkuð nokkuð.
Meginreglan var sú að fæðingarhreppur skyldi sjá um framfærslu en hefði þurfamaður verið lengi heimilisfastur í öðrum hreppi gat framfærsluskyldan færst yfir á þann hrepp. Frá 1810 var sveitfesti í norður- og austuramti bundið við 20 ár þannig að hreppur tók ekki við framfærslu þurfamanns sem fæddur var annarsstaðar fyrr en hann hafði búið í hreppnum í 20 ár. Í fátækrareglugerðinni frá 1834 var sveitfesti stytt í 5 ár, eins og kemur fram hjá sr. Jörgen, en 1848 var sveitfestitíminn lengdur í 10 ár. Kona eignaðist við giftingu framfærslusveit eiginmanns síns, skilgetin börn tóku framfærslusveit foreldra sinna en óskilgetin börn fylgdu framfærslusveit móður.
Þurfamenn nutu hvorki stjórnmálalegra né fjárhagslegra réttinda. Ef einhver þurfti að segja sig til sveitar þurfti hann að hlíta úrskurði hreppstjóra, hreppsnefndar eða fátækranefndar og fara í vist þangað sem yfirvöld ákváðu. Þurfamönnum og börnum þeirra var komið fyrir þar sem yfirvöldum þótti best henta og fór það þá eftir yfirvöldum á hverjum stað og tíma hvort hagsmunir einstaklinganna voru hafðir að leiðarljósi fremur en sveitarsjóðs. Bann var lagt við öreigagiftingum með konunglegri tilskipun 1824 þannig að fólk, sem þáði sveitarstyrk eða stóð í skuld við sveitarsjóð fyrir þeginn sveitarstyrk, mátti ekki ekki ganga í hjónaband nema með leyfi sveitarstjórnar.
Ýmis form voru á stuðningi yfirvalda við fátæka þurfamenn. Í kaflanum um Sigurð og Arnbjörgu á Æsustöðum kemur fram að hreppstjórinn í Saurbæjarhreppi hefur greitt þeim hjónum (Arnbjörg að sjálfsögðu aldrei nefnd á nafn í því samhengi) beinan styrk í von um að þau kæmu undir sig fótunum og yrðu ekki til frambúðar ómagar á sveitinni þrátt fyrir sára fátækt. Á þessum tíma var framlagið úr sveitarsjóði ýmist beinn styrkur eða lán en eftir 1872 varð slíkt framlag að láni sem þiggjandinn átti að endurgreiða og þurfti að afsala sér ýmsum lýðréttindum á móti, t.d. kosningarétti.
Miklu þekktara form fyrir sveitarstyrk var það þegar þurfamönnum og börnum þeirra var komið fyrir á búum bænda. Slíkir þurfamenn hétu þá niðursetningar í kirkjubókum eða niðursetur. Sumir þessir niðursetningar voru sjúklingar og aldrað fólk sem komið var fyrir hjá þeim sem höfðu tök á að annast það, ýmist um skamman tíma eða til æviloka. Aðferðin var sumstaðar sú að þurfafólkið var boðið upp á hreppsfundum. Fékk sá bóndi niðursetninginn sem bauðst til að taka hann í vist fyrir lægsta gjaldið. Þessi aðferð var greinilega viðhöfð í Saurbæjarhreppi á seinni hluta 19. aldar en vert er þó að geta þess að ekki var sjálfgefið að niðursetningur færi til þess sem lægst bauð. Þegar bændur þar buðust til að hafa Gunnlaug Haraldsson fyrir ákveðið gjald, sem skráð var í hreppsbækur, hélt Gunnlaugur áfram að vera í vist hjá föðursystur sinni sem væntanlega hefur þá fengið það meðlag frá hreppnum sem lægstbjóðandi var skráður fyrir.
Þó svo að hreppstjóri hafi leitað tilboða í umönnun hvers niðursetnings var í gildi formleg eða óformleg verðskrá fyrir umönnunina, á árunum 1850 til 1880 240 fiskar fyrir barn. Verðlagið fór svo lækkandi með hækkandi aldri barnanna og aukinni getu þeirra til að hjálpa til við bústörfin. Dæmi voru líka um að bændur gerðu kröfu til hreppsnefndar um hærri greiðslur en taxtinn sagði til um ef um erfiða sjúklinga var að ræða sem þurftu mikillar umönnunar við.
Rétt er líka að benda á að sveitarómögum var ekki alltaf komið fyrir hjá vandalausum. Þegar Gunnar Grímsson á Sólborgarhóli féll frá og heimilið var leyst upp, fékk ekkja hans greitt meðlag frá hreppnum til að annast tvö barna sinna en einu þeirra var vissulega komið fyrir hjá vandalausum og var því niðursetningur. En Ingibjörg ekkja Gunnars fór með þrjár dætur sínar í vist til bróður síns og fékk sveitarstyrk með tveimur þeirra en sú elsta var komin um fermingu og því orðin matvinnungur og þurfti ekki meðlag.
Þurfamenn voru ekki endilega baggi á samfélagi sínu. Börn og unglingar sem voru niðursetningar fóru snemma að vinna og taka þátt í baráttunni fyrir lífsbjörginni en húsbændum þeirra bar að fæða þau og klæða. Sama gat verið að segja um sjúka og aldraða, oft hefur verið hægt að fela þeim léttari störf svo sem tóvinnu. Þess vegna gat fátækt fólk séð sér hag í að taka að sér niðursetninga.
Segja má að alltaf megi búast við ákveðnum fjölda þurfamanna, sjúklingum, fötluðum – andlega og líkamlega – og öldruðum. Fjöldi fullfrískra þurfamanna á vinnufærum aldri og barna þeirra var hins vegar undir ýmsu kominn. Árferði hafði sitt að segja. Á 9. áratug 19. aldar voru harðindaár á Íslandi sem urðu mörgum fátæklingum erfið. Kuldaskeiðið sem varað hafði a.m.k. frá 17. öld og sumir fræðimenn vilja nefna „Litlu ísöld,“ náði hámarki á 9. áratug 19. aldar og líklega hafði ekki orðið jafnkaldara á Íslandi frá því að land byggðist. Um og upp úr aldamótunum 1800 voru hin mestu harðindaár og árin 1800–1803 verst. Hafís var oft við landið fram yfir 1820. Árin 1811–1812 voru mjög erfið en einstaka ár á þessum fyrstu árum aldarinnar þó sæmileg. Árið 1822 var „fellivor“. Hallgrímur Hallgrímsson segir að árin 1835–1854 hafi verið „einhver hin bestu ár i sögu lands vors og á þeim árum náðu íslenskir bændur þeim þroska efnalega sem þeir hafa síðan að búið. Síðan hefir aldrei komið mannfellir á Íslandi og aldrei skepnufellir, svo teljandi sé, í samanburði við það sem átt hefir sér stað á fyrri öldum.“ Sr. Jörgen skrifar pistil sinn í byrjun þessa góðviðristíma.
Eftir 1854 tók við harðindakafli, árin 1860–70 þóttu erfið og þurfafólki í Saurbæjarhreppi fjölgaði stórlega. Árin milli 1880 og 1890 eru talin köldustu ár frá því er land byggðist þótt sæmileg ár hafi komið inn á milli. Eftir 1890 hefur ætíð verið hlýrra og raunar má tala um meira og minna samfellt hlýindaskeið á 20. öld. (Helstu heimildir fyrir framansögðu eru þessar:
- Jón Kr. Kristjánsson, Súlur, fyrra hefti 1979, bls. 115 - . Hallgrímur Hallgrímsson, Eyfirðingarit I, 1968, bls. 12 - .
- Gísli Ágúst Gunnarsson: Ómagar og utangarðsfólk, Sögufélag, Reykjavík 1982.
- Oddur Sigurðsson: Variations of termini of glaciers in Iceland in recent centuries and their connection with climate. Óbirt grein í mars 2002.
Boðskapur sr. Jörgens er að fimm meginástæður liggi til þess ástands sem honum rennur til rifja:
- Illt árferði sem reyndar fór batnandi þá um nokkurt skeið en það sá sr. Jörgen auðvitað ekki fyrir.
- Ofþrengslin sem stöfuðu af því að fólki fjölgaði þrátt fyrir allt. Stundum hafa fræðimenn bent á að landið bar ekki nema takmarkaðan mannfjölda með þeim framleiðsluaðferðum sem þekktar voru. Þegar komið var fram á 19. öldina var komin ákveðin hreyfing á framleiðsluhætti. Við sjávarsíðuna voru teknar upp aðferðir við veiðar og vinnslu sem bættu afkomu fólks og til sveita var einnig farið að bera á þessu, sbr. það sem presturinn segir um kálgarða- og jarðeplarækt og um fóðurkaup handa skepnum. Þá má einnig leiða hugann að því hvort skilvirkari leiðir í fátækraframfærslu hafi ekki haldið lífinu í fleirum en áður gerðist.
- Viðleitni fátæks fólks til að lifa sjálfstæðu lífi, þ.e. að eignast eigin fjölskyldu og standa á eigin fótum, hafði í för með sér að allar jarðir voru setnar og afdalakot byggðust og heiðarbýli. Afleiðingin var líka sú að „betri“ bændum reyndist æ erfiðara að fá ódýrt vinnuafl og hagnaður þeirra af búrekstri varð því minni en ella.
- Afleiðing af skorti á bújörðum var eðlilega að jarðarleiga varð dýrari en áður. Víða hagaði svo til í sveitum að jarðeign hafði safnast á fárra hendur og stórbændur gátu svarað aukinni eftirspurn eftir jarðnæði með hækkuðu verði.
- Sr. Jörgen númerar síðustu ástæðuna ekki sérstaklega og skýrir ekki heldur að fólk sé að veita sér „óþarfar nauðsynjar“ í stað þess að una við það sem efni þess leyfa. Þetta böl hefur víst þekkst lengi og ekki örgrannt um að enn eimi eftir af því sumstaðar í íslensku þéttbýli í upphafi 21. aldar.