Uppruni og fyrstu börn Elísabetar Jónsdóttur

Uppruni og fyrstu börn Elísabetar

Elísabet Jónsdóttir (1831-1876) - Barna-Beta eins og hún var stundum nefnd - var dóttir Jóns Brynjólfs­sonar (1789-1846) bónda í Botni í Súgandafirði en þar í sveit höfðu forfeður hans búið frá því fyrir 1700. Móðir hennar var Margrét Guðmunds­dóttir (1807-1840) frá Kleifum í Skötufirði, dóttir Guðmundar „sterka“ Sigurðssonar (1765-1848) á Kleifum sem fjölmargir Vestfirðingar rekja ætt sína til. Elísabet ólst upp í foreldrahúsum í Botni, missti reyndar móður sína 9 ára gömul en faðir hennar bjó þar áfram með Þóru systur sína sem bústýru. Árið 1850 var Elísabet 19 ára vinnukona á Seljalandi í Skutulsfirði og árið 1851 eignaðist hún dreng með Sigurði Hinrikssyni (1794-1860) bónda þar, sem var 37 árum eldri en hún, harðgiftur maður og faðir a.m.k. fjögurra uppkominna barna. Drengurinn var skírður Guðmundur (1851-1851). Meðal barna Sigurðar var Hinrik „skip­stjórnar­maður“ sem var þá nýlega giftur sér 6 árum eldri konu, hún sjálfsagt í góðum efnum sem eftir var að slægjast. Nú þarf ekki mikið hugmyndaflug til að álykta sem svo að hér hafi gamli maðurinn hlaupið undir bagga með syni sínum og gengist við barni Elísabetar, annað eins var nú brallað á þessum árum. Góður skáldsagnahöfundur gæti jafnvel látið sér detta í hug að hér sé komin skýring á Hinriks-nafninu sem Elísabet notaði síðar og þá til að minna sig á æskuástir. Um þetta er þó ekkert vitað og skýring kirkjubókarinnar á tilurð Guðmundar þarf ekki að vera langsóttari en hver önnur. Húsbóndavaldið var sterkt á þessum árum.

Árið 1853 eignaðist svo Elísabet dótturina Jónu (1853-1854) með Árna nokkrum Jóns­syni (1825-1888), Önfirðingi sem þá var vinnumaður í Vigur hjá Kristjáni og Önnu, sem sagt verður frá í kaflanum um Sigmund Erlingsson, en þar var Árni skráður til heimilis ásamt Elínu Jónsdóttur sem síðar varð kona hans. Sú sambúð virðist ekki hafa orðið mjög gæfusöm. Árni endaði fljótlega sem þurfamaður á Kirkju­bóli í Önundar­firði og víðar án konu og barna.

Bæði Guðmundur og Jóna Elísabetarbörn létust á fyrsta ári.