Húsið í skóginum 2016

Húsið í skóginum 2016

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir harðan vetur upp vorsól rann
og vermdi svo landið ísa
að skörungur margur í skinni brann,
nú skyldi í afrek vísa.
Í Garði hver vinnufær verk sér fann,
hér skal verðugri stefnu lýsa:
Nú skyldi lokið við náttstað þann.
Já, nú átti stigi að rísa.

Sveit fylltist lífi en sólskríkjan ei,
sá fugl oft verpti gleiður
upp undir þaki og að dró hey
um alheimsins víðu breiður.
Nú lá hann á gólfi sveltur, svei,
svolítið meira en deyður.
Gat ekki varast það vorfuglsgrey
að vantaði stiga upp í hreiður.

Brátt valsaði í Garði virkur her
við vorstörf í mörgum greinum.
Rafvirkinn klár þá gerði gler
í gluggunum nema einum
því rúða úr pöntun ekki er
afgreidd frá byrgja seinum
en verkstjórinn kom til verka sér
að vinna að stiga í leynum.

Athafnamaður hófst upp á ný,
örorkan var ekki að sliga hann,
svo árið færi ekki allt fyrir bí
með áformum væddi sig hann.
Kyrrlátt þótti þó kofa í.
Var hann kominn inn fyrir svigann?
Samt gerðist allmargt á ári því
sem Ólafur smíðaði stigann.

Nú þurfti ekki karp um keisarans skegg,
kappið var marga að sliga.
Í kofanum sitthvað komst á legg,
en kaffið var brókarmiga
uns framtaksmenn gengu með oddi og egg
í það - ég gríp ei til lyga -
að festa þar eldhúsbekk upp á vegg
meðan Ólafur smíðaði stiga[1].

[1] Hér eins og víðar í skýrslunni ber að hafa í huga fornt spakmæli sem segir að ekki megi góð saga líða fyrir sannleikann.

Vaskur var festur og vatn til leitt
úr vorglöðu lækjarbóli.
Til hliðar er gashella, gerist heitt
ef gas er leitt að því tóli.
Húsið að innan hillum skreytt.
Hitt er á snigils róli
því starfslið ákvað að starfa ei neitt
meðan stigann smíðaði Óli.

Ördeyða í framkvæmd ei var samt,
allt upphófst í málþófshryðju
með tali um hliðgrind Helgu tamt:
Betra heilt en að skipta í miðju?
Ákvörðun náði eigi skammt
í atkvæðagreiðslu þriðju,
keyptar tvær grindur því kjör féll jafnt
og kominn stigi úr smiðju.

Í fjölskyldunni er framtak skást
ef fjölskipuð nefnd sést tíðar
svo langþráð markmið hlaut nú að nást
eftir náttlangar ræður stríðar.
Nú hliðgrindur prúðar í hlaði sjást
frá Hamri og eflaust víðar
Sveitungar allir að því dást
og að Óla sem stigann smíðar.

En svefnloftið bíður á bitum hátt
þó bættist smá plata í það.
Sjaldan er þó í koti kátt
en kraðak í stofu víða.
Sést enn í Garði af gestum fátt
geispandi í poka skríða
af því að sagt var opinskátt
að enn mætti stiginn bíða.

 

Ei má í Garði efna í svall,
þann ósið svo mörgum taman.
Þó nurluðu sumir nesti í dall
og nammi í sig tróðu að framan.
Kvenfólk settist með kaffi á pall
og kökur og hafði gaman.
Ungviðið kom og einstaka kall
en Óli rak stigann saman.

Býsna góð spretta á berjum var,
þau bláu má ætíð lofa
eftir októberhret þau haustlyng bar
en heima í frístundakofa
beið klósettið góða og kræsingar
ef kuldi í mó olli dofa.
Að fara að létta á sér ljúft er þar
og um leið yfir stiga að klofa.

 

Nýlega vetur gekk í Garð
sem gestnauð er undan leystur.
Lyngið er fölt um laut og barð,
í lófum nú mýkist hreistur.
Með faglegri stjórn og framsýn varð
fjárhagur Garðsins treystur
og vori aftur ber vinnan arð,
þá verður nú stiginn reistur.