Eftir fæðingu barnsins fékk Sigurjón Karítas, hálfsystur sína, til að vera hjá sér en um haustið kom Petrína Jónsdóttir, systurdóttir Sigurjóns, suður frá Bolungarvík og var hjá þeim feðgum um veturinn. Þegar hún fór vestur aftur um vorið hafði hún Grétar með sér og ætlaði sér að ala hann upp. Hún var þá sjálf orðin ófrísk að sínu fyrsta barni þannig að Anna, móðir Petrínu og hálfsystir Sigurjóns, tók drenginn að sér og ól hann upp fram að fermingu. Sigurjón kom vestur á hverju sumri og sinnti syni sínum, sá honum fyrir fötum og fór með hann með sér í ferðalög.
Þegar Grétar fermdist kom Sigurjón vestur og hafði drenginn með sér suður og vildi koma honum í skóla. Drengurinn sýndi skólagöngunni lítinn áhuga en fékk sér skipspláss og fór í siglingar. Hann flutti til Bergen í Noregi, giftist þar tvívegis og kom einungis heim síðan sem gestur.
Afkomendur Magnúsar Jónssonar, sem muna eftir Sigurjóni, segja hann hafa verið góðan frænda og frændrækinn. Hann kom oft til Magnúsar, var nánast heimagangur, segja sumir, og alltaf aufúsugestur, skemmtilegur og alltaf í góðu skapi. Sigurjón var hægrisinnaður í pólitík og hallur undir nasisma um tíma og hugsanlega alla tíð. Gárungar sögðu að hann hefði gengist upp í að skammstafa nafnið sitt SS.