Sigurjón Skarphéðinsson Svanberg

Sigurjón Skarphéðinsson Svanberg

Frá því segir í Bæjarfréttum Vísis 9. apríl 1920 að Sigurjón Skarphéðinsson náms­maður hafi tekið sér ættarnafnið Svanberg. Þá voru ættarnöfn mjög í tísku.

Sigurjón Skarphéðinsson Svanberg

Sigurjón Svanberg (1901-1972) eða Sigurjón Skarp­héðinsson Svanberg, eins og hann var síðan skráður á kirkju­bækur, fæddist í Efstadal en fluttist með foreldrum sínum í Hvítanes, Gunnars­­eyri og Hnífs­dal og þaðan til Reykja­víkur. Hann var 12 ára þegar hann kom til Reykjavíkur og hóf fljótlega beykis­nám hjá Jóni Jónssyni föður­bróður sínum. Jón bjó og rak verkstæði á Klappar­stíg 26 og þegar Skarp­héðinn og Pálína fluttu til Reykjavíkur leigðu þau risíbúð þar og bjuggu hjá Jóni ásamt Sigurjóni og Bergþóru og hugsanlega Sigmundi þangað til hann féll frá.

Hjá Jóni starfaði Sigurjón lengi framan af og tók við verkstæði hans á Klapparstíg 26. Verkstæðið rak hann um árabil og kallaði Beyki­vinnustofu Reykja­víkur. Þegar dró úr notkun trétunna var rekstrinum sjálfhætt en Sigurjón fékk vinnu í Smjörlíkis­gerðinni Smára og starfaði enn um hríð sem beykir. Eftir það vann hann hjá Magnúsi frænda sínum Jónssyni á húsgagna­verkstæði hans og enn síðar sinnti hann einhverjum störfum í Fossvogs­kirkjugarði, m.a. sem grafari. Hann hefur efnast vel því að hann átti stór hús þar sem hann bjó sjálfur og leigði út frá sér íbúðir, t.d. á Grettisgötu, Grundarstíg og Njarðar­götu.

 Sigurjón kvæntist Guðrúnu Guðbrands­dóttur (1900-1938) sem var ættuð norðan úr Fljótum og Ólafsfirði en hún lést þegar Guðbrandur Grétar Svanberg (1938-2017), frum­burður þeirra, fæddist. Talið er að hún hafi ekki þolað svæfingu sem hún fékk en á þessum tíma tíðkaðist að svæfa konur til að létta þeim þjáningar við barns­burð. 

Eftir fæðingu barnsins fékk Sigurjón Karítas, hálfsystur sína, til að vera hjá sér en um haustið kom Petrína Jónsdóttir, systurdóttir Sigurjóns, suður frá Bolungar­vík og var hjá þeim feðgum um veturinn. Þegar hún fór vestur aftur um vorið hafði hún Grétar með sér og ætlaði sér að ala hann upp. Hún var þá sjálf orðin ófrísk að sínu fyrsta barni þannig að Anna, móðir Petrínu og hálfsystir Sigurjóns, tók drenginn að sér og ól hann upp fram að fermingu. Sigurjón kom vestur á hverju sumri og sinnti syni sínum, sá honum fyrir fötum og fór með hann með sér í ferða­lög.

Þegar Grétar fermdist kom Sigurjón vestur og hafði drenginn með sér suður og vildi koma honum í skóla. Drengurinn sýndi skóla­göngunni lítinn áhuga en fékk sér skipspláss og fór í siglingar. Hann flutti til Bergen í Noregi, giftist þar tvívegis og kom einungis heim síðan sem gestur.

Afkomendur Magnúsar Jónssonar, sem muna eftir Sigurjóni, segja hann hafa verið góðan frænda og frændrækinn. Hann kom oft til Magnúsar, var nánast heima­gangur, segja sumir, og alltaf aufúsugestur, skemmtilegur og alltaf í góðu skapi. Sigurjón var hægrisinnaður í pólitík og hallur undir nasisma um tíma og hugsanlega alla tíð. Gárungar sögðu að hann hefði gengist upp í að skammstafa nafnið sitt SS.

Sigurjón Skarphéðinsson Svanberg og Grétar Svanberg Sigurjónsson

 

Guðbrandur Grétar Svanberg á leið til Íslands með Norrænu sumarið 2008