Helga og Pálmi í Garðshorni
Eldri sonur Steinunnar og Guðmundar var Pálmi. Hann tók við búskap af föður sínum í Grjótgarði og bjó í Garðshorni með Helgu Sigríði, konu sinni, til 1925 þegar börn þeirra tóku við búskapnum. Hér segir frá búskap þeirra Helgu.
Á Grjótgarði uxu börn Steinunnar Önnu og Guðmundar úr grasi og þegar Pálmi var tvítugur 1896 tók hann við búinu. Þegar fjölskyldan fluttist í Garðshorn á Þelamörk árið 1899 var Pálmi kominn með konu, Helgu Sigríði Gunnarsdóttur af Kjarna- og Syðri-Bægisárætt í móðurætt en föðurættin var frá Gásum og Arnarnesi. Þau giftu sig í Glæsibæjarkirkju 22. september 1898 og var Þorsteinn Daníelsson óðalsbóndi á Skipalóni og frændi Helgu svaramaður. Pálmi og Helga byrjuðu búskap sinn í Garðshorni sem leiguliðar sr. Arnljóts Ólafssonar í Sauðanesi og afkomenda hans en hann hafði áður verið prestur á Bægisá og alþingismaður. Jörðina keyptu þau 1920 fyrir 500 krónur.
Öll börn Pálma og Helgu – Garðshornssystkinin í miðið – fæddust eftir að þau fluttu í Garðshorn, Jóhanna Guðrún 1899, Steindór Guðmundur 1901 og Frímann 1904. Frímann fæddist reyndar ekki í Garðshorni heldur hafði Helga farið inn í Baldurshaga í Kræklingahlíð, líklega til að vera nær lækni og ljósmóður ef fæðingin yrði erfið. Hér má líka hafa í huga að á Hlöðum, í nágrenni Baldurshaga, átti heima á þessum tíma Ólöf skáldkona og ljósmóðir – þótt hún sinnti reyndar lítið ljósmóðurstörfum.
Baldurshagi „... stóð á sjávarbakkanum syðst í landi Glæsibæjar, skammt sunnan við Fjárklettinn [þurrabúð, eflaust kennd við örnefni í landslagi]. Býlið var stofnað úr Glæsibæjarlandi 1902 í tengslum við síldveiðar en þar var einnig búskapur“ (Byggðir Eyjafjarðar II, 1990). Á þessum tíma bjuggu í Baldurshaga Baldvin Baldvinsson og Guðrún Gunnarsdóttir, systir Helgu og fóstra, en Baldvin stundaði sjómennsku á meðan hann bjó á Skipalóni og gerði enn þegar hér var komið sögu og a.m.k. fram á árið 1906 þegar þau Guðrún fluttu til Ólafsfjarðar. En hér naut Helga enn einu sinni systur sinnar þegar mikið lá við. Þann 16. febrúar var Frímann tekinn með töngum og skírður skömmu síðar áður en hann var fluttur vestur í Garðshorn snemma í mars og þar átti hann síðan heima samfellt þangað til hann flutti til Akureyrar 1973 þar sem hann bjó til dauðadags 1980.
Á árunum 1908 - 1910 voru Helga og Pálmi ein með börnum sínum í Garðshorni en það ár kom þangað Anna Sigurðardóttir, 57 ára húskona, náfrænka Steinunnar Önnu, og var þar til 1915 eða þangað til Steinunn kom þangað aftur. Anna dó á Neðri-Rauðalæk 1922, 67 ára.
Annað vinnufólk var ekki hjá Pálma og Helgu fyrr en árið 1919 en þá kom í Garðshorn vinnumaður og var þar til 1923, Kristján Steinstrup Jónsson, Steini, sem hafði búið á Efri-Rauðalæk með Árna bróður sínum 1915 til 1917 eða þangað til Haraldur organisti flutti þangað með fjölskyldu sína. Jóhanna segir ekki orð um Steina í bréfum sínum til Arnbjargar svo að ekki verður ráðið af þeim hvernig eða hvenær samdráttur þeirra hefur verið en ljóst er að þar var ekki leitað langt yfir skammt.
Pálmi Guðmundsson var talinn bóndi í Garðshorni til 1925. Jóhanna og Steini, sem höfðu talist ábúendur á Neðri-Rauðalæk 1921-1923 en fóru síðan eitt ár í Laugaland, tóku þá við búinu og bjuggu í tvö ár en fluttu síðan í Bryta. Eftir það var Steindór Pálmason skráður bóndi en í reynd var um félagsbú bræðranna að ræða undir stjórn móður þeirra. Steindór var oftar skráður fyrir búinu á þessum árum, enda eldri, en í sumum skýrslum eru báðir bræðurnir kallaðir bændur. Það var þó Frímann sem sá mun meira um bústörfin utanhúss en Steindór fékkst við smíðar og var oft langdvölum í vinnu utan heimilis. Pálmi var hins vegar sagður í húsmennsku í Garðshorni frá 1925 og nánast til dauðadags 1947. Hann gekk til allra verka með bræðrunum en hélt sig meira til hlés út á við. Garðshornsbúið varð á þessum árum með stærstu búum í hreppnum með 8 til 10 nautgripi sem var mikið miðað við að stærstu kúabúin með 15-20 gripi voru á þessum tíma í næsta nágrenni Akureyrar þar sem markaður var fyrir daglega mjólkurframleiðslu. Þá voru í Garðshorni 120 til 150 fjár, 2-5 hross og oft 7-8 hænur. Önnur stór bú í Glæsibæjarhreppi á þessum tíma voru Dagverðareyri og Syðri-Skjaldarvík en einnig má nefna Laugaland, Skipalón, Einarsstaði, Glerá og Hlaðir.
Frímann Pálmason hélt dagbók fyrri hluta árs 1921 þegar hann var 17 ára gamall. Hún er góð heimild um daglegt líf í Garðshorni á þessum árum en þó einkum um útiverk og samskipti heimilisfólks við fólk á öðrum bæjum. Þrátt fyrir þá mynd sem framangreind vísa Jóhannesar Sigurðssonar gefur af samskiptum Þelmerkinga bendir dagbók Frímanns til að fólk hafi farið talsvert milli bæja en vel má vera að þetta hafi breyst á þeim tveimur áratugum sem liðu milli þess að dagbókin var skráð og þangað til Jóhannes flutti niður á Þelamörk.
Það leið varla sá dagur að einhver á heimilinu færi ekki á næstu bæi eða í kaupstað eða að einhver af næstu bæjum kæmi ekki í heimsókn. Það var farið í kirkju og það var farið á fundi í Ungmennafélaginu Vorhvöt sem var stofnað 1917 og átti félagsheimili í Ási. Það bar jafnvel við að þeir bræður brygðu sér á fótboltaæfingar út á Skógabakka. Fólk kom af næstu bæjum og fékk lánaðan sleða eða hey og Garðshornsfólkið fékk eitthvað annað lánað frá næstu bæjum. Rósant á Hamri kom og járnaði hest sem hann virðist hafa kunnað betur en heimamenn. Oft er erinda fólks ekki getið, aðeins að þessi eða hinn hafi farið eða komið. Pálmi bóndi var sérlega duglegur að fara á bæi og í kaupstað. Að vetrinum var gengið á skíðum eða farið á hestum. Ein skýring á gestagangi í Garðshorni getur verið að „kirkjuvegurinn“ lá um hlaðið og fólk leit inn ef það „gekk um“ eins og það var orðað. Skógafólkið kom stundum án erindis og þarna er sagt frá því að Guðrún systir Helgu Sigríðar hafi verið sótt inn á Akureyri og hún dvaldi í Garðshorni nokkra daga og Helga fór með henni í heimsóknir á bæi þar sem hún þekkti til.
Dagbókarfærslurnar byrjuðu yfirleitt á veðurlýsingum en þetta sumar hefur verið kalt, 17. júní var „grimmdarfrost í nótt, stálfrosin jörðin eins og á haustdegi.“ Á eftir veðurlýsingum var síðan tiltekið í hvaða verkum piltarnir voru, Pálmi bóndi, Steindór og Frímann sjálfur. Sjaldan var sagt frá störfum stúlknanna sem á þessum tíma voru Helga húsfreyja, Jóhanna og Steinunn en þó segir frá því að baðstofan hafi verið þrifin 29. og 30. apríl. Á heimilinu voru tvö tökubörn, Kári Larsen og jafnaldra hans Ragnheiður Jóhanna Sófusdóttir sem alltaf var þó kölluð Bára því að það var þriðja nafnið hennar. Bára var móðir Sigríðar konu Stefáns G. Jónssonar kennara, Sveins Heiðars byggingameistara og Sæbjargar – Löllu – konu Jóns Hlöðvers Áskelssonar. Jóhanna Bára, eins og hún nefndist síðar, var aðeins eitt ár í Garðshorni.
Sagt var frá því að bóndinn á Steðja hafi verið fluttur á sjúkrahús og dáið þar og að barn hafi fæðst á Efstalandi – Ásta Frímannsdóttir. Vinnumaður á Syðri-Bægisá fórst í Öxnadalsánni, var leitað og fannst. Þann 4. apríl er þessi færsla: „Jóhanna fór fram að Efstalandi og kom ekki heim fyrr en einhvern tíma. Frændi kom og fékk 1 hest af taði. Steini hafði vindgang.“ Og þann 21. apríl er skráð: „Sumardagurinn fyrsti. Enginn kom og enginn fór neitt nema Steindór, hann fór eins og hann var vanur suður að Bægisá til að hirða skepnurnar prestsins. Hann fór með mjólk til frúarinnar og fékk hjá henni kaffi og lummur í staðinn. Hún bað kærlega að heilsa. Allir fengu sætt kaffi og kakó og hengiket, magál og bringukolla svo enginn kláraði. Sumarið er komið og þá getur maður átt von á góðu veðri á hverjum degi, það færi betur að tíðin yrði góð, þá gengur allt betur og allir verða ánægðir.“
Þegar Frímann dó 1980 lét hann eftir sig fleiri dagbókarbrot, byrjaði sem sagt oftar á því að halda dagbók en þær heimildir um líf hans voru ekki varðveittar.
Jóhanna og Steini fluttu frá Garðshorni í Laugaland 1923 en komu aftur 1925 til að hefja þar búskap eins og áður segir. Reynir sonur þeirra var þá ársgamall, fæddur á Laugalandi. Það ár var Steini titlaður bóndi í Garðshorni en Frímann vinnumaður. Pálmi var sagður húsmaður, Helga kona hans, Steindór son þeirra, Steinunn ekkja og Kári tökubarn. Árið 1927 fluttu Steini og Jóhanna í Bryta en þá var Steindór titlaður bóndi í Garðshorni og hafði Margréti Sigurrós Sigfúsdóttur (1896-1972) fyrir ráðskonu. Frímann var þá enn vinnumaður en Pálmi og Helga voru skráð foreldrar bónda. Steinunn var skráð ekkja sem fyrr en Kári orðinn vinnupiltur, 14 ára gamall.
Margrét þessi ráðskona var dóttir Sigfúsar Guðmundssonar (1850-1924) á Sjávarbakka og Katrínar Sigurðardóttur (1852-1939) konu hans. Þau bjuggu þar á árunum 1905 – 1924 eða þangað til Sigfús dó en síðan bjó Katrín þar ein til 1930. Þau áttu fleiri börn, eldri, Sigtrygg Júlíus, Soffíu, Tryggvínu Maríu og Baldvinu Guðrúnu. Katrín hefur verið orðin 45 ára þegar hún eignaðist Margréti. Margrét var afkomandi Svanhildar systur Rósu Oddsdóttur í Flöguseli, langömmu Pálma í Garðshorni.
Sögur fara af því að oft hafi verið glatt á hjalla í Garðshorni á meðan Margrét var þar ráðskona. Enginn er til frásagnar um þetta lengur en svo mikið er víst að Margrét varð ófrísk um veturinn og fór heim til sín út á Sjávarbakka um vorið. Í lok nóvember næsta vetrar eignaðist hún síðan dreng sem nefndur var Kristján og kenndur Frímanni í Garðshorni. Kirkjubókin segir að hann hafi gengist við faðerninu. Það kemur berlega fram í bréfi Margrétar Jónsdóttur til Arnbjargar mágkonu sinnar að Kristján var ekkert fagnaðarefni á Garðshornsheimilinu í upphafi og faðernið jafnvel dregið í efa. Steindór var í upphafi talinn líklegri faðir en aðrir úr sveitinni einnig nefndir, t.d. Búi síðar bóndi á Myrkárbakka. Hvað sem því leið þá fór Helga út á Sjávarbakka einhverjum mánuðum eftir fæðingu drengsins og sótti hann og ól hann síðan upp með Frímanni en fátt hafði hann af móður sinni að segja upp frá því. Heimsóknir hans til hennar inn á Akureyri voru ekki neinar sælustundir í endurminningu hans.
Margrét eignaðist dóttur með Júlíusi Davíðssyni, Sigrúnu Margréti (1932). Sigrún giftist austur á Jökuldal og bjó þar síðan með Þórði Sigvaldasyni tónlistarkennara og organista á Hákonarstöðum. Þau eignuðust 5 börn. Þegar Margrét dó 1972 eftirlét Sigrún Kristjáni hálfbróður sínum íbúð hennar í Lækjargötu 6 og þar bjó hann um tíma. Margrét giftist síðan Guðjóni Einari Manasessyni, sem segir frá í kafla um Kristfinn ljósmyndara, son hans. Hann hafði skilið við Rósu, konu sína, og yngdi nú rækilega upp, Margrét 32 árum yngri en hann. Guðjón var svo sem ekki við eina fjölina felldur frekar en Margrét því að hann hafði eignast barn, Guðjón, með vinnukonu sinni á meðan þau Rósa bjuggu í Ási. Guðjón lést 1941.
Garðshornslangfeðgar, Guðmundur, Pálmi, Frímann og Steindór voru ekki atkvæðamiklir í félagslífi sveitarinnar. Enginn þeirra sat í hreppsnefnd fyrr en Frímann tók þar sæti 1955 en hann sat þar samfellt til 1969. Steindór og Frímann tóku þó þátt í stofnun og starfi ungmennafélagsins Vorhvatar sem starfaði frá 1917 og fram yfir 1930. Frímann var líka um árabil formaður Lestrarfélags Þelamerkur, varðveitti bókasafnið og sá um útlán. Félagið keypti árlega bækur sem voru síðan látnar ganga um sveitina en auk þess gátu félagsmenn fengið lánaðar eldri bækur úr bókasafninu í Garðshorni. Bækur safnsins eru nú geymdar í Þelamerkurskóla.
Þó að Helga Sigríður berist ekki mikið í tal í bréfunum til Boggu og skrifi ekkert bréf sjálf, þá var hún húsfreyja í Garðshorni lengst af á árunum 1899 til 1947 og stýrði búi, fyrst með tengdaforeldrum sínum og eiginmanni, síðan með sonum sínum báðum og loks með Steindóri einum eftir að Frímann giftist 1942.
Margrét mágkona Helgu segir hana hafa verið sívinnandi og sennilega var það hún sem hélt í alla tauma lengst af. Helga var atkvæðamikil á heimili og ráðrík. Ef til vill var það þess vegna sem Jóhanna dóttir hennar og Steini gáfust upp á búskap í Garðshorni 1925-27 og fluttu í Bryta en skýringin gæti líka verið sú að jörðin bar ekki framfærslu allra sem þar vildu vera. Og þegar Frímann sonur hennar eignaðist Kristján með Margréti ráðskonu Steindórs eins og að framan greinir, var það Helga sem tók af skarið og sótti drenginn til móðurinnar og ól hann upp með föður hans fram yfir fermingu eða þangað til Guðfinna tengdadóttir hennar kom inn á heimilið.Guðfinna bar Helgu ekki alls kostar vel söguna en því verður þó að taka með varúð því að náin sambúð tengdamæðgna hefur oft verið báðum erfið. En það er ljóst að þær voru alls ekki sammála um allt. Ekki er vitað til að Helga hafi komið í Garðshorn til tengdadóttur sinnar eftir að hún flutti til Akureyrar og það er líka í minnum haft að Guðfinnu fannst alls ekki sjálfsagt að hún færi að jarðarför Helgu sem gerð var frá Bægisá.
Útliti Helgu Sigríðar má lýsa með svipuðum hætti og útliti Ingibjargar systur hennar hér að framan. Eldri Garðshornssystkinin yngstu (Frímanns og Guðfinnu) minnast hennar sem gamallar konu og góðrar ömmu eftir að hún flutti til Akureyrar sumarið 1947 og bjó fyrst í Hafnarstræti 86 og síðan á Hvannavöllum 4 í nábýli við börn sín, Jóhönnu og Steindór. Hún var til heimilis hjá Steindóri þegar hún dó í júní 1958, 83 ára að aldri.
Það er til marks um iðjusemi Helgu í Garðshorni að hún gat haft mörg járn í eldi samtímis. Jón Ólafur Bjarnason, bróðir Guðfinnu, segir frá því að Steindór hafi smíðað eða útbúið strokk handa Helgu sem hún gat knúið með fótstigi. Þannig gat hún setið og strokkað um leið og hún prjónaði en á meðan hún strokkaði og prjónaði samtímis gat hún lesið í bók og gerði gjarnan því að hún var bókhneigð. Hún skrifaði minningargrein í Dag um Katrínu frænku sína Jóhannsdóttur á Rauðalæk þegar hún lést árið 1927 en þá var fátítt að konur gerðu slíkt.
Pálmi var rúmliggjandi í berklum um árabil, líklega á árunum 1905-1908, en hann náði síðan nánast fullri heilsu og gekk til allra verka þótt hann hafi líklega haft eitthvað skert þol. Heyrst hefur að Pálmi hafi þótt góður fyrir sig í viðskiptum, jafnvel var hann kallaður „refur“. Ef til vill var hann líkur Steindóri syni sínum sem var einstakur höfðingi og vildi allt fyrir þá gera sem honum var annt um en var ekkert gefinn fyrir að láta hafa af sér fé þegar kom að viðskiptum við vandalausa að ekki sé minnst á hið opinbera. En til marks um höfðingsskap Steindórs má nefna að hann lét sig ekki muna um að gefa bróður sínum sinn hlut af jörðinni í Garðshorni þegar hann flutti þaðan sjálfur. Og þegar hann lést ánafnaði hann Náttúrulækningafélagi Akureyrar eignir sínar til að hægt væri að byggja upp heilsuheimili í Kjarnalundi.
Árni J. Haraldsson frá Hallfríðarstöðum segir Pálma hafa verið mikinn heiðursmann og traustan til orðs og æðis. Hann hafi verið fastheldinn á forna siði þannig að nýbreytni á Garðshornsheimilinu hefur verið komin frá öðrum fremur en honum. Mikið vinfengi var milli uppeldisfjölskyldu Árna og Garðshornsfólksins, t.d. voru gagnkvæm jólaboð árviss viðburður á meðan Haraldur og Laufey bjuggu á Rauðalæk.
Eftir lát Helgu gáfu Garðshornssystkinin, Jóhanna, Steindór og Frímann, skírnarfont í Bægisárkirkju. Hann var vígður með því að Helga Laufey Kristjánsdóttir Frímannssonar og Hennýjar var skírð í höfuðið á ömmu sinni en hún fæddist 18. nóvember 1959.
Ýmislegt bendir til að heimilishald í Garðshorni á fyrri hluta 20. aldar hafi verið framúrstefnulegt á ýmsan hátt. Þar var byggt eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsunum þar um slóðir 1932, þangað var keypt fyrsta dráttarvélin í sveitina 1946 (Farmall A, Ad 90, sem síðast þegar vitað var stóð fyrir ofan bæjarhúsin í Hraukbæ í Kræklingahlíð), þar var sett upp vatnsrafstöð sama ár og þar voru ræktaðar kanínur til manneldis.
Um 1935 komu þýsk hjón sem vinnufólk til Benedikts á Bægisá (Húsá) og bjuggu í Kirkjubæ sem var einhvers konar grasbýli eða hjáleiga frá Ytri-Bægisá. Neðri bærinn á Bægisá var hins vegar kallaður Húsá eftir ánni sem kemur úr Húsárskarði og fellur í fossum suður og upp af Garðshorni. Þýsku hjónin hétu Edmond og Merta Ulrich og dóttirin Fríða. Þegar breski herinn hernam Ísland 1941 lét hann það verða eitt af sínum fyrstu verkum að handtaka Edmond og gera upptæk senditæki sem fundust hjá honum falin úti í hlöðu. Edmond var fjarlægður og sást aldrei meir á Íslandi svo vitað sé. Mertha varð hins vegar eftir og lést í elli í Skjaldarvík og dóttir þeirra giftist austur á Hérað.
Edmond kom oft í Garðshorn og spjallaði og einhvern tíma gaf hann Frímanni bónda tvær kanínur úr búi sínu, karl og kerlingu og kenndi Helgu að matreiða þær. Um skeið var talsvert kanínubú í Garðshorni, líklega 30-40 dýr, sem lifðu þar í holum í hlaðvarpanum framan við bæinn og í hól sem þá var norðan við fjárhúsin. Svo mikið líf var í hólnum að í honum var ylur sem bræddi snjóföl. Fram undir 1970 sást móta fyrir holunum í hlaðvarpanum en hóllinn var horfinn.
Kanínurnar voru nytjaðar. Þeim var gefið hey og rófur á veturna en voru að öðru leyti sjálfala. Öðru hverju var slátrað. Þá á Frímann að hafa skotið þær með riffli eða veitt þær í gildru sem hann útbjó. Skinnið var selt til Akureyrar í sútun en kjötið var steikt og þótti lostæti.
Eftir að Guðfinna kom í Garðshorn hafði hún ekki áhuga á að nytja kanínur, þótti þær ekki mannamatur fremur en fuglakjöt. Og þegar Helga Sigríður flutti til Akureyrar sumarið 1947, var stofninum eytt og kanínur voru ekki lengur á borðum í Garðshorni.
Til er teikning af gömlu bæjarhúsunum eftir Steindór Pálmason og málverk af bæjarhúsunum eftir lýsingu Steindórs auk þess sem til er greinargóð lýsing á húsum frá þeim tíma er Guðmundur Sigfússon flutti í Garðshorn 1899. Leifar af gömlu baðstofunni voru til framundir 1960 sem einskonar tengibygging milli íbúðarhússins og fjóssins. Um 1960 var svo gamla baðstofan endanlega rifin og skúrbygging („skúrinn“) reist í staðinn með steyptum veggjum og járnþaki. Varðandi ítarlegri lýsingu á byggingum í Garðshorni fyrr og síðar er vísað í sérstaka grein um byggingasöguna.
Rafstöð var sett upp í Garðshorni 1947 og þess vegna muna Garðshornssystkinin yngstu varla eftir óupplýstu húsi nema frá öðrum bæjum í sveitinni. Rafstöðin gat framleitt 4 kw á 220 volta jafnstraumi en vatnsskortur olli því þó að hún skilaði yfirleitt ekki fullum afköstum, a.m.k. ekki að áliðnum vetri. Vatnið fékk hún úr lindum sem koma upp fyrir ofan fjallsgirðingu og var því veitt norður með girðingunni og í lítið miðlunarlón („damminn“) uppi á Enghól. Þetta miðlunarlón safnaði í sig sandi og á einhverra ára fresti þurfti að moka honum upp úr þrónni.
Og í mikilli snjókomu safnaðist krap í „damminn“ sem olli rafmagnstruflunum. Rafstöðin var notuð til að lýsa upp bæjarhús og útihús og í Garðshorni var rafmagnseldavél og ísskápur, frystikista, hrærivél, þvottavél og mjaltavél. Afgangsorka var notuð til að hita miðstöðvarvatnið sem að öðru leyti var hitað með kolakyndingu. Þegar lagfæra þurfti rafstöðina, var kallað á Steindór Kristfinnsson Guðjónssonar, rafvélavirkja og meistara í þeirri grein.