Húsbruni á Grjótgarði
Sigurður Sigmarsson tók upp á því um daginn að deyja, mér og fleirum að óvörum. Hann var lengi nágranni okkar í Garðshorni, á meðan hann átti heima á Hamri, og í miklum metum hjá okkur systkinunum.
Siggi á Hamri sagði skemmtilega frá. Oftar en einu sinni heyrði ég hann segja frá því þegar kviknaði í skúrnum hans Árna á Grjótgarði.
Árni Jónsson var bróðir Franklíns smiðs á Laugalandi, Kristjáns Steinstrup sem um tíma bjó á Bryta og Margrétar konu Frímanns bónda á Hamri og Efstalandi. Systkinin voru talsvert fleiri, börn Jóns Árnasonar ljósmyndara og þúsundþjalasmiðs á Laugalandi og Sigurbjargar konu hans. Árni var einsetumaður og starfaði lengst af sem smiður, var t.d. yfirsmiður við byggingu steinhússins í Garðshorni 1933. Á seinni hluta 6. áratugar 20. aldar vann hann ýmis verk fyrir Gunnar Höskuld Kristjánsson kaupmann í Verslun Eyjafjörður sem á þeim tíma átti Grjótgarð. Árni hafði fengið að byggja sér íbúðarskúr á Grjótgarði þar sem hann bjó og hélt heimili og bruggaði landa í kjallara sem var undir skúrnum.
Það var einhverju sinni sem ungir og miðaldra menn á Mörkinni komu saman á Krossastöðum til að spila, annaðhvort vist eða bridds. Slík spilamennska tíðkaðist nokkuð á Þelamörk um þetta leyti, m.a. man ég eftir að menn kæmu af næstu bæjum til að spila í Garðshorni liðlanga nótt eða þangað til Frímann bóndi þurfti að fara í fjós. En spilamennirnir á Krossastöðum að þessu sinni voru þeir Sigfús á Efri-Rauðalæk, Baldur á Brúnastöðum, Sverrir í Skógum, Reginn á Steðja og Pétur á Krossastöðum auk sögumannsins Sigga á Hamri sem þennan vetur var vetrarmaður hjá Bensa á Bægisá, Benedikt Einarssyni söðlasmið og bónda á Bægisá II eða Neðri-Bægisá eins og bærinn var stundum nefndur. Stundum var bærinn líka kallaður Kirkjubær, m.a. skráður þannig í prestþjónustubók.
Hvað um það, á meðan spilamennskan stóð sem hæst á Krossastöðum bárust boð um það í sveitasíma eða með öðrum hætti að kviknað væri í skúrnum hans Árna á Grjótgarði. Vaskir spilamenn brugðust skjótt við og Baldur ók þeim öllum út í Grjótgarð á mjólkurbílnum sem hafði flutt þá að heiman og út í Krossastaði fyrr um kvöldið. Nú er skemmst frá því að segja að skúrinn var alelda þegar þá félaga bar að og litlu hefur líklega tekist að bjarga nema hálfelduðum landa úr kjallaranum var bjargað frá eyðileggingu og notkunarleysi. Siggi taldi að landinn hefði líkega ekki verið sem skyldi því að þeir félagar urðu blindfullir af honum áður en yfir lauk og haldið var heim á leið, sumum varð jafnvel hálfillt af honum. Ekki varð meira af spilamennsku á Krossastöðum þetta kvöld en það var heimferðin sem Siggi lýsti með mestum tilþrifum.
Engum sögum fer af heimferð Péturs í Krossastaði en þegar komið var að Steðja var Reginn fárveikur. Siggi lýsti nú vandlega hvernig Sverrir í Skógum reyndi að hjálpa Regin að æla fyrir utan mjólkurbílinn með því að þræða upp í hann snærisspotta til að kitla kokið. Líklega hefur aðgerðin heppnast vel og engum sögum fer heldur af heimkomu Sverris í Skógum en hann hefur vafalaust verið mörgum þeirra yngri mannanna reyndari í drykkjuskap og notið þess.
Baldur ók þeim félögum, Fúsa og Sigga, suður á leið, framhjá Brúnastöðum sem kemur svo skemmtilega við sögu Björns Th. Björnssonar, Falsaranum, nær 150 árum áður en bærinn var byggður. En það er önnur saga. Fúsi var skilinn eftir við brúsapallinn á Rauðalæk og honum látið einum eftir að staulast heim á bæ þar sem heimilisfólkið kom að honum um morguninn sofandi við eldhúsborðið. Baldur ók Sigga suður að Bægisá og segir ekki meira af ferðum hans nema heim komst Baldur og heim komst Siggi sem stakk sér beint inn í rúm um leið og hann kom inn fyrir dyr á Bægisá. Hann hafði þó einhverja vitund um að Bensi hefði vakað eftir honum því að svo mikið er víst að Bensi kallaði inn til Sigga og spurði hvernig hefði gengið að slökkva hjá Árna. „Ágætlega, ágætlega,“ kallaði Siggi á móti enda hafði allt brunnið sem brunnið gat.
Siggi lauk svo sögunni með því að lýsa því hvað hann hefði verið óskaplega þyrstur þegar hann sinnti gegningum á Bægisá daginn eftir.
Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvenær þessir miklu atburðir gerðust en það var örugglega fyrir 4. janúar 1959 þegar Bensi dó á Bægisá að kvöldi áttræðisafmælisdags síns og þetta gerðist víst líka eftir að Siggi var virkur félagi í Bindindisfélaginu Vakandi sem starfaði um tíma þar í sveitinni.
(Greinin birtist í Heimaslóð, árbók Hörgársveitar, 16. hefti 2019)