Um ástina
(Flutt á skemmtun læknanema í maí 1968)
Á menntaskólaárunum var ástin fyrirbæri
sem átti stað í hjartanu og skáldin um það sungu.
Og þeim fannst næsta eðlilegt að illa stundum færi
ef ástafarið rak í strand. Og hjörtun jafnvel sprungu.
Menntskælingar trúa öllu sem að skáldin segja
og sumir okkar voru oft úr kærleika að deyja.
En við sem hugðumst síðar meir iðka læknislistir
við lærðum margt um hjartað af okkar kennslubókum
og einnig reyndust kennararnir um það býsna fróðir
og allir við á móti þeirra speki fegnir tókum.
Þeir veittu okkur svölun sem vorum fróðleiksþyrstir
um vöðva sem er holur og á að dæla blóði.
Að innan var hann líka með endotheli klæddur
og elektrískar breytingar þar verða í hverri frumu.
Og enda þótt menn væru dálítið óklárir á sumu
var ástin ekki nefnd né sá möguleiki ræddur
að hún væri þar orsök að abnormaliteti
ectopískum fókus og hyperkalemíu.
Svo bústað ástarinnar þarf að athuga að nýju.
Þótt ekki þýði að neita að líka verið geti
að endókrínólógían eigi hlut að máli.
En enginn skyldi biðja svo óholls veganestis
fyrir ungu kynslóðina sem kannski heyrir þetta
(þótt hún sé kannski gjörspillt af peningum og prjáli
og pínulítið ósiðleg) við megum ekki segja
að ástin hún sé staðsett í óvaría og testis.
Ekki meir um það.
En nú var mér að detta
í hug að það er alkunnugt að unnvörpum menn deyja
úr infarctusi stíflu og jafnvel hjartaslagi.
Og læknar standa í rauninni ráðþrota hér yfir,
reyna kannski meðul, sitt af hverju tagi,
og núna síðast skipta þeir hreinlega um hjarta
þótt heldur sé það fátt sem að eftir þetta lifir.
En yfir því skal hér ekki æðrast eða kvarta.
Þeir fleygja gamla hjartanu með ást og öllu saman
og annað hjarta setja með nýrri ást í staðinn.
Sé þetta hjarta kærleiksríkt þá er bættur skaðinn.
En þótt nú væri nauðsynlegt að gera aðgerð slíka
á mér er hætt við að það yrði ansi lítið gaman
þótt aðgerðin sé framkvæmd af læknum prýðishæfum
og gullfallegum hjúkrunarkonum kannski líka,
ja, kannski ekki gullfallegum en hjúkkum allavega
þá vildi ég fá hjarta úr Casanova kræfum
en konuhjarta vildi ég sko bara ómögulega.
Þá vildi ég næstum frekar fara úr stíflu og tappa.
Fyrirgefið bullið. Nú megið þið klappa.