Úttekt 1899

Árið 1899, þann 2. júní, var tekin út jörðin Garðshorn á Þelamörk þegar frá henni fer Sigurjón Jónsson en við tekur Guðmundur Sigfússon. Sigurjón var sjálfur mættur og fyrir hönd viðtakanda er mættur sonur hans, Pálmi Guðmundsson. Umráðamaður jarðarinnar, sr. Theodór á Bægisá, er einnig til staðar.

Þessi gjörð framfór þannig:

Nr. 1. Baðstofa, lengd 8 ½ ál., breidd 5 ½ ál., 10 stoðir, 2 lausholt, 4 sperrur, 3 heilbitar og einn af þeim sundurskorinn við skilrúmsdyrnar, 3 skammbitar, 13 langbönd, hurð á járnum við dyrastafi, 1 sex rúðu gluggi og 2 4ra rúðu gluggar. Viðir fornir og húsið farið að skekkjast, veggir sem sjást heldur stæðilegir, þak brúklegt.

Nr. 2. Búrhús: Lengd 5 ½ ál., breidd 3 ½ ál., 8 stoðir, 2 lausholt, 2 heilbitar, 2 skammbitar, 11 langbönd, þil við aurstokk til gangna, hurð á járnum með hespu, grind allsterk, er farin að fúna, veggir fornir með holum, þak brúklegt, lítill gluggi fylgir.

Nr. 3. Eldhús: Lengd 4 al., breidd 4 al., 2 bitar, 2 sperrur og nokkurt yfirrefti, hinir litlu viðir að mestu nýlegir, veggir gamlir en allvel stæðilegir. Þakið gott. Eldhúsið er hurðarlaust.

Nr. 4. Göng frá baðstofu til bæjardyra, lengd er 8 al., breidd 1 ½ al, reft með gömlum spýtum, veggir gamlir og sumpart skakkir, þak brúklegt.

Nr. 5. Bæjardyr: Lengd 5 al., breidd 3 al. með 6 stoðum, 2 lausholt, 3 bitar, 3 sperrur, 8 langbönd með lang- og þverrefti, rámað þil að framan við aurstokk, hurð á járnum með klinku og loku, viðir gamlir sumir, þilið allsterklegt, þak brúklegt, veggir fornir að mestu, vindskeiðar eru á þilinu.

Nr. 6. Skáli norðan við bæjardyr: Lengd 5 ½ al., breidd 3 ½ al. með 6 stoðum, 2 lausholtum, 3 bitum, 3 sperrum, 16 langböndum, þil að framan við aurstokk, hurð á járnum við dyrastafi, viðir grannir en óskakkt því húsið er nýreist, norðurveggur nýr og syðri kampur, að öðru eru veggir fornir og þakið gott.

Nr. 7. Stofa sunnan við bæjardyr: Lengd 5 al., breidd 3 al., með 8 stoðir, einlæg lausholt, 4 bitar, 4 kálfasperrur með ýmislegu langrefti yfir, þil að framan við aurstokk úr nýjum skífum, þétt og rámað, 2 rúðu gluggi fylgir en nú rúðulaus, hurð á járnum við dyrastafi með hespu og keng, veggir góðir að mestu, þak allgott. (Viðir í húsinu allgóðir og veggir því húsið er nýlega viðgjört).

Nr. 8. Fjós sunnan við bæ: Lengd 7 al., breidd 3 al., 2 stoðir undir 2 ásum og styttur undir 2 hliðarásum, 16 máttarröftum, 11 spýtur yfir mæniásum, 2 hurðir á járnum, viðir allsterkir en þó sumpart fornir, veggir á þrjá vegu allvel standandi en suðurstafn útsnaraður. Rangali til fjóstóttar er nú hærri og reftur með spýtum, áður samanhlaðinn. Þak brúklegt.

Nr. 9. Fjárhús syðra uppi á velli, lengd 6 al., breidd 4 ¾ al. með 6 stoðum undir auknum ásum, tveimur hliðarásum og styttur í vegg undir, 21 máttarraftar og langrefti yfir, hurð á járnum við dyrastafi með hespu og keng, viðir fremur grannir og sumpart fúnir, veggir fornir, þó sumpart nokkuð stæðilegir. Þak brúklegt, nokkurt sprek yfir ásum, garðaumbúnaður fylgir.

Nr. 10. Hesthús niður á velli: Lengd 4 ½ al, breidd 3 ¼ al. með einum ás, 14 máttarrafta og dálitlu yfirrefti, hurðarflak á járnum við dyrastafi, viðir allsterkir og veggir allvel standandi, þakið gott.

Á framantalin hús er álag metið:

Á nr. 1 Baðstofu kr. 56.00
Á nr. 2 Búrhús kr. 16.00
Á nr. 3 Eldhús kr. 13.00
Á nr. 4 Göng kr. 13.00
Á nr. 5 Bæjardyr kr. 11.00
Á nr. 6 Skála kr. 12.00
Á nr. 7 Stofu kr. 7.00
Á nr. 8 Fjós kr. 22.00
Á nr. 9 Fjárhús kr. 7.00
Á nr. 10 Hesthús kr. 3.00
Samtals kr. 160.00

Upp í álagið er metið:

Nr. 1 Stóra fjárhús kr. 16.00
Nr. 2 Hlaða þar við kr. 14.00
Nr. 3 Þiljur allar í baðstofu og 4 rúmstæði kr. 43.00
Nr. 4 Syðra hús uppi á velli kr. 10.00
Nr. 5 Hlaða þar við kr. 11.00
Nr. 6 Helsthúskofi og hlöðuræfill þar við kr. 3.75
Nr.7 Tvær hurðir í göngum kr. 2.00
Samtals kr. 99.75

Vantar þá í álagið kr. 60,25 sem hlutaðeigandur ætla að semja um sem fyrst.

Þúfnaslétta finnst að vera 140 ferfaðmar og á það að fullnægja skyldusléttunni. Kúgildiskýrin og 12 kúgildisær er allt afhent í dag í fullu standi.

Fyrir að berja syðri sléttu álýst hæfilegt 1 dagsverk eða kr. 2.00, er svo úttektinni lokið og ætlar fráfarandi að vinna það sjálfur.

I Einarsson, H. Stefánsson

Pálmi Guðmundsson
viðtakandi

Theodór Jónsson

 

Þegar Guðmundur Sigfússon dó í ágúst 1904 þurfti að gera nýjan leigusamning milli Snæbjarnar Arnljótssonar verslunarstjóra á Þórshöfn á Langanesi, eiganda og umráðamanns Garðshorns, og Pálma Guðmundssonar sem hafði búið á 1/3 jarðarinnar á móti föður sínum. Nýi samningurinn var gerður 22. maí 1905. Í honum er kveðið á um að Pálmi skuli greiða 32 kr. í leigu af innistæðu­kúgildum, einni kú og tólf ám, og 90 krónur í landsskuld að auki eftir jörðina. Hann átti að viðhalda kúgildunum þremur, húsum jarðarinnar og öðrum mannvirkjum svo og landamerkjum. Á hverju ári átti hann að vinna 8 dagsverk að nauðsynlegum jarðabótum, þúfnasléttun og túngörðum. Leigusamningnum fylgir ítarleg lýsing á landamerkjum þar sem vísað er í horfna lækjarfarvegi og örnefni sem nú eru gleymd.

Til er til veðbókarvottorð frá sýslumanni frá árinu 1920 þegar Pálmi keypti jörðina skuldlausa á 5 þúsund krónur.