Inngangur
Höfundur þessa pistils hefur á seinni árum hallast að því að það sé hverjum manni hollt að þekkja rætur sínar og vita eitthvað um nánustu forfeður sína og formæður og afkomendur þeirra. Þessi skoðun styrkist eftir því sem ellin færist yfir og svo mun vera um fleiri að með aldrinum eykst áhugi á að vita eitthvað um ættmenni sín. Í þessari trú hef ég nýlega tekið saman pistil um ömmu mína í móðurætt. Pistillinn nefnist Barna-Beta eftir ömmu ömmu sem vann sér það helst til frægðar að eignast 8 börn með 6 mönnum. Þar á undan hafði ég tekið saman fróðleik um föðurættina frá Kjarna, Flöguseli, Stóragerði, Arnarnesi, Æsustöðum og víðar en þar var barnafjöldi meira áberandi en makafjöldi og fyrir kom að konur eignuðust 18 og 19 börn. Dæmi um slíka frjósemi hef ég ekki rekist á fyrir vestan. En nú er komin röðin að afanum í móðurætt, Bjarna Bjarnasyni, með áherslu á móður hans, Jónu Jónsdóttur, sem var ekki mikill eftirbátur Barna-Betu hvað barneignir og barnsfeður snerti. Barna-Beta náði 45 ára aldri en Jóna langamma dó 35 ára en hafði þá eignast 7 börn með 4 mönnum.
Í þessum pistli segir mest frá sjómannafjölskyldum en bærinn Breiðaból í Skálavík kemur líka oft við sögu þótt þar hafi ekki búið sjómenn en Breiðaból þótti mikil kostajörð til heyskapar. Þar bjó Árni langafi Jónu seint á 18. öld og jörðin hafði verið í eigu sumra forfeðra hans sem voru sýslumenn, lögréttumenn, stórbændur og annars konar höfðingjar mann fram af manni. Seinni tíma afkomendur þessara stórhöfðingja voru af allt öðrum toga, yfirleitt örsnautt almúgafólk. Margir þeirra fengu ekki að alast upp hjá foreldrum sínum, sumir ólust upp hjá skyldmennum og sumir hjá vandalausum um lengri eða skemmri tíma en ýmsir þó við sæmilegt atlæti. Líklega var það fólk frekar gott við niðursetninga sem hafði sjálft fengið sama hlutskipti sem börn.
Hér segir fyrst frá Jónu Jónsdóttur og Bjarna Þorlákssyni sem giftust og bjuggu saman 4 ár í sjóbúð í Bolungarvík. Bjarni fórst á sjó, 33 ára gamall, og Jóna dó úr lungnabólgu rúmum 10 árum síðar, þá orðin 35 ára.
Saga Bjarna varð ekki löng eða viðburðarík en þó hafði hann átt mörg heimili í uppvextinum, stundum án foreldranna en þó lengur með þeim, öðru eða báðum í senn. Jóna hafði reynt margt á stuttri ævi en var þó í foreldrahúsum öll uppvaxtarárin sem var þó ekki mjög algengt þar vestra á þessum árum. Hún eignaðist 7 börn með 4 mönnum, var oftast fátæk vinnukona, lengst af í Bolungarvík en fjögur ár var hún inni á Ísafirði. Reynt er að rekja æviferla nánustu afkomenda þeirra Jónu og Bjarna, systkina þeirra og nánustu afkomenda systkinanna. Nokkur hliðarspor verða stigin með því að kanna barnsfeður Jónu og ýmislegt fólk sem tengist skyldmennum hennar. Þar er Elísabet Guðmundsdóttir í sérflokki af því að hún átti börn með bæði bróður Jónu og föður. Flest það sem hér kemur fram var sagnaritara nýtt enda hafði hann ekki sýnt þessu fólki mikinn áhuga áður og ekki hafa tengsl verið mikil milli barna Jónu og Bjarna þannig að skyldmennin hafa ekki vitað mikið hvert um annað. Sumt það sem hér kemur fram er líka nýtt í þeim skilningi að upplýsingum hefur verið bætt í Íslendingabók eða þær leiðréttar þegar þær hafa verið rangar eða ekki til. Þannig er nú búið að finna réttan föður handa Matthildi dóttur Jónu, búið er að upplýsa um barneignir Rósu Athaníasardóttur, ömmu Sigurjóns sonar Jónu, og tekist hefur að upplýsa um örlög Vigdísar systur Jónu sem fluttist til Noregs.
Talsverðu myndefni hefur verið safnað saman. Reynt hefur verið að lýsa sögusviðinu í Bolungarvík og Skálavík með myndum þannig að ókunngir geti áttað sig á aðstæðum. Það ætti hinsvegar að vera skylda hvers afkomanda ættforeldranna frá Ytribúðum og Breiðabóli að heimsækja þessa staði og sjá ættarslóðirnar með eigin augum. Eins ættu afkomendur Bjarna Þorlákssonar og systkina hans ekki að láta undir höfuð leggjast að fara um Dýrafjörðinn yst sem innst í sama tilgangi. Það er fallegt á Vestfjörðum, ekki síst þegar vel viðrar, og jafnvel svo að eitt barna minna hafði við orð eftir heimsókn í Skálavík að það gæti vel hugsað sér að eiga þar heima – yfir sumartímann.
Myndir af einstaklingum sem koma við sögu hafa verið dregnar upp úr skúffum, ofan af veggjum og út úr albúmum. Einstaka mynd hefur fundist fyrir hreina tilviljun eins og myndin af Kristjáni, syni Vigdísar Jónsdóttur, sem hangir uppi á vegg í hótelinu í Reykjanesi.
Í sumum fjölskyldum hefur ekki tíðkast að taka myndir af heimilisfólki enda voru myndavélar ekki til á hverju heimili. Í öðrum fjölskyldum eru til myndir teknar á ljósmyndastofum frá fyrstu áratugum 20. aldar. Sama gildir um þetta fólk og landslagið fyrir vestan, fólkið er almennt bráðfallegt og það sem meira máli skiptir – það hefur fengið orð fyrir að vera gott fólk. Kynni mín af þessu fólki, þegar ég hef leitað til þess eftir upplýsingum, staðfesta þennan orðróm. Margir hafa lagt höfundi lið með upplýsingar og myndir. Þeir eiga þakkir skildar.
Sá háttur er hafður á frásögninni að leitast er við að einstakir kaflar séu nokkuð sjálfstæðir þannig að hægt sé að lesa þá án þess að kunna og muna það sem stendur í köflum sem á undan eru komnir. Ég mæli þó með að kaflarnir um Ytribúðafólkið og um barneignir Jónu séu alltaf lesnir. Þessi viðleitni til að hafa kaflana sjálfstæða hefur í för með sér að sumstaðar eru setningar og smágreinar fluttar orðréttar á milli kafla og endurteknar. Kaflinn um Bjarna Bjarnason er mikið til óbreyttur frá því sem hann er í samantekt minni um Barna-Betu, ömmu Friðgerðar ömmu, konu Bjarna afa.
Það er líka önnur ástæða fyrir því að ég reyni að hafa kaflana nokkuð sjálfstæða. Ég geri mér vissulega vonir um að þessi samantekt geti nýst börnum mínum og systkinabörnum svo og öðrum afkomendum Bjarna afa þegar þau hrökkva upp við það á elliárum – eins og ég – að þau vita ekkert um tildrög sín. En samantektin gæti líka nýst einhverju því fólki sem hér kemur við sögu og hefur engan sérstakan áhuga á Bjarna afa og því fólki sem tengist honum mest en gæti verið forvitið um nánustu ættmenni.
Neðanmáls eru nöfn með fæðingar- og dánardegi fólks sem kemur við sögu. Þessar upplýsingar eru flestar í Íslendingabók en eru hafðar hér til að auðvelda lesanda að átta sig á hvenær viðkomandi var uppi en líka til að tryggja að lesandi hafi rétta persónu í huga. Ég vísa yfirleitt ekki í heimildir nema þær séu til á prenti en margt af því sem hér er sagt er haft eftir ættmennum sem ég hef leitað til. Jón frændi í Hafnarfirði – Jón Ólafur Bjarnason móðurbróðir minn – og Gunna frænka í Bolungarvík – Guðrún Jónsdóttir systurdóttir Friðgerðar ömmu – eiga þar stærstan þátt. Á nokkrum stöðum er texti tekinn meira og minna orðréttur upp úr minningargreinum án þess að vísað sé til þeirra sérstaklega.
Á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar, þegar mestur hluti þessarar sögu gerist, var mikill uppgangstími í útgerð og fiskvinnslu við Ísafjarðardjúp. Frá alda öðli höfðu sjómenn komið innan úr Djúpfjörðum til að róa til fiskjar frá Bolungarvíkurmölum því að þaðan var stutt á gjöful fiskimið. Þá bjuggu menn í verbúðum sem hróflað var upp á Mölunum en annars stóðu þær tómar. En nú var svo komið sögu að fólk var farið að hafa þarna fasta búsetu árið um kring. Vestur í Djúp streymdi á þessum tíma fólk úr öðrum landshlutum til að fá vinnu og afla sér viðurværis, m.a. komu tveir barnsfeður Jónu Jónsdóttur í þeim tilgangi sunnan úr Dölum. Þéttbýlið við Skutulsfjörð hafði verið að byggjast upp alla 19. öldina en á árunum 1890 til 1910 tvöfaldaðist íbúafjöldinn í Ísafjarðarkaupstað og þrefaldaðist til 1930. Eftir 1940 hægði mjög á þessari þróun og snerist svo við. Veruleg fólksfjölgun var einnig á öðrum þéttbýlisstöðum á norðanverðum Vestfjörðum fram til 1910-1920 en eftir það stóð fólksfjöldinn í stað til 1960 nema helst á Flateyri.
Þegar hugað er að sögu fólks, sem lifði á ofanverðri 19. öld og öndverðri 20. öld, þarf einnig að hafa í huga að þá gekk yfir eitt mesta kuldaskeið í sögu landsins sem náði hámarki upp úr 1880. Það kann að skýra að hluta baslið á mörgu fólki sem hér kemur við sögu, t.d. hve algengt það var að foreldrar gátu ekki alið önn fyrir börnum sínum sem var komið í fóstur, ýmist til vandalausra eða skár stæðra skyldmenna.
Þegar saga Bolungarvíkur er sögð er gjarnan sögð saga tveggja stóreignamanna sem voru áberandi á 20. öld, Péturs T. Oddssonar og Einars Guðfinnssonar. Pétur var bóndasonur frá Hafrafelli við botn Skutulsfjarðar sem braust til eigna með aðstoð Guðmundar bróður síns sem hafði tekið við búinu á Hafrafelli. Pétur rak, þegar best lét, útgerð, fiskvinnslu og verslun í Bolungarvík og var talinn með efnuðustu mönnum á Íslandi. Hann reisti glæsilegt hús yfir stóra fjölskyldu sína, jafnan nefnt Péturshús en var síðar gjarnan nefnt „hús sorgarinnar“ því að á tveimur áratugum missti Pétur öll börn sín og eiginkonu auk nokkurra náinna ættingja og annars heimilisfólks, allt úr berklum.
Pétur fylgdi 14 líkum til grafar úr húsi sínu á árunum 1907 til 1930. Á sama tíma fjaraði undan atvinnurekstri Péturs en úr rústum hans reis veldi Einars Guðfinnssonar frá Litlabæ í Skötufirði. Lungann úr 20. öldinni ráku Einar og synir hans öll helstu fyrirtæki í Bolungarvík, útgerð, frystihús, verslun, byggingarfyrirtæki og þannig mætti lengur telja.[1]
Saga Jónu Jónsdóttur og ættmenna hennar og tengdafólks í Bolungarvík er vissulega samofin sögu stórmennanna en þetta fólk er þó varla nokkurs staðar nefnt á nafn í slíkum ritum nema helst í annálum um sjóslys og náttúruhamfarir[2].
[1] Jón Þ. Þór: Saga Bolungarvíkur, fyrsta og annað bindi. Sögufélag Ísfirðinga, Ísafirði 2007.
[2] Eyjólfur Jónsson: Vestfirskir slysadagar 1880-1940. Sögufélag Ísfirðinga, Ísafirði 1996.