Kristfinnur Guðjónsson
Annar fóstursonur Steinunnar og Guðmundar var Kristfinnur Guðjónsson ljósmyndari á Siglufirði sem kom til þeirra fjögurra ára gamall. Eftir lát Guðmundar var Kristfinnur hjá Arnbjörgu dóttur þeirra og fluttist með henni vestur í Skagafjörð.
Guðjón Einar Manasesson (1864-1941) var fæddur á Steðja á Þelamörk og Rósa Kristjánsdóttir (1865-1955) fæddist á Hamri í sömu sveit. Guðjón fluttist með foreldrum sínum og systkinum að Sílastöðum í Kræklingahlíð 1868 og þaðan að Ási 1877. Foreldrar Guðjóns höfðu búið þar þangað til hann tók við búinu. Manases og Guðrún áttu auk Guðjóns Ólöfu Rósu (1866-1937), Sigríði Soffíu (1868-1928) og Önnu Guðrúnu (1871-1926) og er út af þeim kominn talsverður ættbogi. Sigríður Soffía var gift Pétri Friðbirni Jóhannssyni en þau voru foreldrar Guðmundar Karls yfirlæknis á FSA, Snorra á Skipalóni og Þórdísar á Djúpárbakka. Steindór sonur Sigríðar Soffíu var afi Úlfars Haukssonar fyrrum kaffibrennslustjóra og formanns Rauða krossins m.m.
Rósa Kristjánsdóttir var systir Margrétar sem síðar bjó á Efstalandi – fluttist þangað þegar Frímann Guðmundsson dó. Bóndi Margrétar var Stefán Guðmundsson, bróðir Valdemars á Fremri-Kotum og Bólu. Amma Rósu var Guðrún Bergsdóttir á Neðri-Rauðalæk, systir Jóns „ríka“ Bergssonar, bónda í Garðshorni á fyrri hluta nítjándu aldar, en Kristján sonur hennar bjó lengi á Hamri á síðari hluta aldarinnar. Rósa fór í fóstur til nöfnu sinnar, dóttur Jóns Bergssonar sem þá var fluttur í Lönguhlíð, og hjá henni ólst hún upp í Lönguhlíð þangað til hún giftist Guðjóni.
Guðjón og Rósa bjuggu að því er virðist þokkalegu búi á Ási á Þelamörk um 1890, hann virtur bóndi og kosinn í trúnaðarstörf á vegum hreppsins þótt ungur væri, var m.a. fengin verkstjórn yfir vegagerð fram Mörkina. Líklega hefur þó ómegðin orðið þeim hjónum um megn því þau brugðu búi í Ási og fóru í húsmennsku bæði í Skriðu og Fornhaga og áttu þá ógreiddar skuldir við Glæsibæjarhrepp auk þess sem 2 börn þeirra voru á framfæri hreppsins. Árið 1899 hafði Manases (1891-1938), síðar bónda á Barká, verið komið fyrir hjá Jóni á Krossastöðum og Bernharð (1899-1932) var í Hátúni hjá Friðfinni Gíslasyni. Guðjón var þá að flytja frá Efri-Glerá í Skriðu en árið 1901 voru þau Guðjón og Rósa í Fornhaga ásamt börnum sínum Manasesi, 10 ára, Vilhjálmi 9 ára, Stefáni 7 ára, Guðrúnu 5 ára og Láru 4 ára, ömmu Atla Guðlaugssonar fyrrum skólastjóra Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Tónlistarskólans á Akureyri.
Sama ár var Kristfinnur Guðjónsson (1896-1974) skráður niðursetningur í Garðshorni og Bernharð var enn tökubarn í Hátúni. Guðjón og Rósa áttu líka Gest f. 1893, Jóhann f. 1906 og Sumarrós f. 1908. Öll þessi 10 börn komust á legg þótt þrengra hafi stundum verið í búi en þótti viðunandi á þeim árum en Lára Margrét f. 1889, Leonarð f. 1903, Snæbjörn f. 1905 létust barnung.
Nokkur mynd hefur fengist af æviferli Kristfinns Guðjónssonar en Kiddi kemur mikið við sögu í bréfunum til Boggu. Steinunn og Guðmundur á Grjótgarði tóku hann í fóstur þegar hann var fjögurra ára og hann ólst fyrst upp með börnum Helgu og Pálma, aðeins 3 árum eldri en Jóhanna Guðrún. Þegar Arnbjörg, dóttir Steinunnar og Guðmundar, hóf búskap með Valdemar á Efri-Rauðalæk 1905 fluttist Steinunn móðir hennar þangað með henni frá Garðshorni ásamt Kristfinni. Einhverju hefur e.t.v. ráðið um það á þeim tíma lá Pálmi í Garðshorni rúmfastur í berklum þar heima. Og þegar þau Arnbjörg fluttu vestur að Kotum, flutti Kristfinnur með henni sem vinnumaður enda þá orðinn 14 ára gamall. Kristfinnur leit alltaf á Arnbjörgu sem fósturmóður sína, jafnvel fremur en Steinunni sem hann þó kallaði mömmu. Hann hafði minna dálæti á Valdemar, eiginmanni Arnbjargar. Kristfinnur var vinnumaður á Silfrastöðum um tíma eins og sagt er frá í sögu Guðmundar G. Hagalín um „Konuna í dalnum og dæturnar sjö“, Moniku á Merkigili. Hann kynntist Kristínu Gísladóttur (1892-1975) úr Vesturdal í Skagafirði. Hún var hálfsystir Indíönu konu Jónasar bóksala á Akureyri en þau voru foreldrar Stefáns bóksala og þeirra systkina.
Kristín og Kristfinnur bjuggu í Kúskerpi í Blönduhlíð 1920-1921, fóru þaðan í húsmennsku að Fossi í Blönduhlíð, grasbýli rétt hjá Bólu, þar sem Steindór Valberg (1921-2010) fæddist. Þar voru þau aðeins eitt ár og fluttust þá í Melgerði í Sandgerðisbót sem nú er í Glerárhverfi á Akureyri. Kristfinnur vann m.a. við að smíða brýrnar yfir Eyjafjarðarána og gerðist síðan ráðsmaður hjá Axel Schiöth bakara. Þá fluttu þau Kristín í Sunnuhvol sem var upp með Búðarlæknum upp af Búðargilinu en Axel bakari átti kotið. 1926 leystist svo heimilið upp þegar Kristín fór berklaveik í Kristneshæli og var þar um árabil. Kristfinnur veiktist líka alvarlega af berklum og lá tvö ár á sjúkrahúsi 1927-1929, þar af 6 mánuði á Landakotsspítala. Löngu síðar talaði hann um að hann hefði fengið brjósklos í hrygg og að gróið hefðu saman hryggjarliðir þannig að hann fékk staurbak. Þegar hann lá á Landakotsspítala í Reykjavík var hann svo langt leiddur af sjúkdómi þessum að honum var ekki hugað líf. Nánustu ættingjum og vinum var tilkynnt um líðan hans og jafnframt sagt ,,að hann myndi ekki lifa til næsta dags“. En hann komst í gegnum þessi miklu veikindi og sagði síðar frá sérkennilegri reynslu sinni er hann með fullri vitund var við dauðans dyr en sneri með undarverðum hætti aftur til lífsins. Læknar þeir sem önnuðust Kristfinn í hægum bata tjáðu honum að hann mundi aldrei stíga í fæturna aftur - ,,en ég náði ekki aðeins að ganga aftur og byrja nýtt líf heldur lifði ég þá alla, læknana“ (Örlygur Kristfinnsson, úr tölvuskeyti).
Þau Kristín og Kristfinnur eignuðust dótturina Rósu Pálínu (1923) á meðan þau bjuggu í Melgerði en Arnbjörg og Valdemar í Bólu tóku hana í fóstur og ólu upp. Á hernámsárunum kynntist Rósa breskum hermanni, Thomas H. Baxter, og fluttist með honum til Englands.
Kristfinnur og Kristín eignuðust einnig dóttur í Sunnuhvoli sem fæddist 1926, skömmu áður en Kristín veiktist og heimilið leystist upp. Stúlkan fór í fóstur til Sigurbjargar Ágústsdóttur í Öxnafellskoti (nú Fellshlíð) og þar var hún skírð Sigurbjörg (1926-2005) í höfuðið á fóstru sinni. Sigurbjörg Ágústsdóttir var dóttir Helgu Sigurðardóttur frá Æsustöðum, systur Steinunnar fósturmóður Kristfinns. Svafar sonur Sigurbjargar var vinnufélagi Kristfinns við Eyjafjarðarárbrýrnar. Ekki er vitað hvort réði meiru um að barnið fór í fóstur til Sigurbjargar, vinátta Kristfinns og Svafars eða náinn skyldleiki Steinunnar Önnu og Sigurbjargar.
Steindór Valberg fór hinsvegar í fóstur til Helgu og Pálma í Garðshorni, fyrst sumarið 1923 með móður sinni, og líklega kom hann þangað aftur 1925 en um tíma var hann vestur í Bólu. Í Garðshorni var hann líklega 3 - 4 ár. Hugsanlega þurfti hann svo að víkja af heimilinu þegar Kristján Frímannsson kom til sögunnar 1928 því að Helgu í Garðshorni gæti hafa þótt fullmikið að vera með tvo pottorma í uppeldi, komin vel á sextugsaldur. Steindór fór því í fóstur að Skjaldarstöðum til systkinanna Jóns og Ragnhildar en Aðalheiður systir þeirra, húsfreyja á Barká, var gift Manasesi Guðjónssyni, bróður Kristfinns. Á Skjaldarstöðum var Steindór í 7 ár en fluttist þá til Akureyrar. Hann lærði rafvélavirkjun og var meistari í þeirri iðn. Kona hans var Laufey Vilhelmsdóttir, ættuð utan með firði.
Steindór Valberg hét í höfuðið á Steinunni Önnu Sigurðardóttur eins og Steindór Guðmundur Pálmason og Steindór Kárason, sonur Kára Larsen sem ólst upp í Garðshorni hjá Helgu og Pálma.
Upp úr hjónabandi Kristfinns og Kristínar slitnaði eftir veikindin. Kristín komst til heilsu og bjó á Akureyri til dauðadags. Hún leigði hjá Steindóri Pálmasyni í Hafnarstræti 86a og bjó þar í sama húsi og Helga Sigríður, Jóhanna og Steindór eftir að þau fluttu til Akureyrar. Þar bjó einnig Reynir, sonur Jóhönnu, ásamt konu sinni Þóru Gunnarsdóttur.
Á meðan Kristfinnur var að ná heilsu stundaði hann smábarnakennslu, m.a. á Þelamörkinni, og rak eigin skóla á Akureyri um skeið – líklega var það um eða eftir 1930 – og um svipað leyti fór hann að vinna við ljósmyndun í Polyphoto og læra hjá Jóni og Vigfúsi, ljósmyndurum á Akureyri. Hann sá um útibú frá ljósmyndastofu þeirra á Siglufirði 1935-45, fyrst á sumrin en síðar allt árið. Hann fékk sveinsbréf í ljósmyndaiðn 1946 og meistarabréf 1949. Hann stofnaði eigin ljósmyndastofu, Ljósmyndastofu Siglufjarðar, og starfrækti hana fram um 1960, stundum með mörgu starfsfólki. Eftir það vann hann verkamannavinnu, m.a. við síldarverkun á sumrin og við tunnusmíði í Tunnuverksmiðju ríkisins á vetrum.
Kristfinnur giftist Jónu Guðbjörgu Stefánsdóttur frá Sigríðarstaðakoti í Flókadal í Fljótum og eignaðist með henni Örlyg (1949) rithöfund, stofnanda og lengi forstöðumann Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Uppeldisdóttir þeirra var Alda Aðalsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur í Garðabæ.
Kristfinnur varð fyrir því slysi að lærbrotna við veiðiskap 1969 og upp úr því fékk hann svo heiftarlega liðagigt að hann var rúmfastur á sjúkrahúsi til dauðadags. Hann lést á Siglufirði 19. mars 1974.
Greinilegt er að Kristfinnur átti alla tíð mjög auðvelt með að blanda geði við fólk og var hrókur alls fagnaðar í vinahópi. Á slíkum stundum naut sín vel kímnigáfa hans, hagmælska og áhugi á lestri góðra bóka. Hann var mjög áhugasamur um útivist og náttúruskoðun og í samræmi við það stundaði hann í nokkur sumur - á fimmta áratugnum - tjaldbúskap á afviknum stað rétt ofan við bæinn á Siglufirði, í hvammi við Hvanneyrará. Nokkrum árum síðar eða um 1950, eftir að hann stofnaði heimili með Jónu, seinni konu sinni, keypti hann sumarbústað austan Siglufjarðar og nefndi Örlygsstaði. Þar dvaldi fjölskyldan um helgar og síðar var þar efnt til svolítils búskapar með 20 kindum. Girtur var nokkur landskiki og tún sléttað þar sem heyjað var í mörg sumur og ærnar báru lömbum sínum á vorin. Á veturna var fénaðurinn hafður í skúr við íbúðarhúsið að Eyrargötu 11. Það var algengt á þessum árum að Siglfirðingar stunduðu slíkan tómstundabúskap til að drýgja tekjur sínar á móti svipulli síldarvinnunni. Kristfinnur hafði auk þessara búdrýginda mikla ánægju af því að annast skepnurnar og talaði stundum um það að á sínum yngri árum hafi sig dreymt um að verða bóndi. Fyrst og fremst leit hann þó á sig sem ljósmyndara og féll honum það þungt að þurfa að hætta iðn sinni er ýmsir erfiðleikar steðjuðu að um 1960 (Byggt á frásögn Örlygs Kristfinnssonar).
Þannig var háttað lífi Kristfinns á Siglufirði þar sem eftir efnum og ástæðum má telja að honum hafi farnast allvel. Að einhverju leyti reyndi hann að rækta fyrri kynni við Garðshornsfólkið eftir því sem tími og samgöngur leyfðu og sum Garðshornsbörnin yngstu minnast þess þegar hann heimsótti Frímann í Garðshorni skömmu eftir 1960, fyrir það hvað hann var kátur og skemmtilegur maður. Bréf hans bera það með sér að hann var ágætlega ritfær og sagði skemmtilega frá.
Eftirfarandi kafli úr bók Guðmundar G. Hagalín, „Konan í dalnum og dæturnar 7“ um Moniku á Merkigili segir frá samskiptum Moniku og Kristfinns Guðjónssonar. Kristfinns er getið í fleiri bókum. Í bók Guðmundar L. Friðfinnssonar á Egilsá um Jónas í Hrauni segir frá því þegar Jónas bóndi bjó enn á Varmavatnshólum. Þar bar þá gest að garði skömmu fyrir jól. Þar var kominn Kristfinnur og dró Steindór son sinn á eftir sér í kassa, var að sækja hann vestur í Bólu þar sem hann hafði verið í fóstri hjá Arnbjörgu. Þessi kafli er birtur með bréfunum til Boggu því að þessi svaðilför þeirra feðga berst í tal í bréfum frá Garðshornsfólkinu.