Petrína og systurnar frá Látrum

Petrína og systurnar frá Látrum

Skarphéðinn Elíasson og Petrína Ásgeirs­dóttir (1864–1890) voru gefin saman í Unaðsdalskirkju á Snæfjallaströnd 25. september 1887 eftir þrjár lýsingar eins og siður var. Skarphéðinn og Petrína voru þá bæði vinnuhjú í Æðey, höfðu flutt þangað um vorið, hann frá Garð­stöðum og hún frá Laugabóli. Við sömu messu voru tvenn önnur hjón vígð þannig að mikið hefur verið um dýrðir.

Petrína var frá Látrum í Mjóafirði eða frá Látri eins og sumir segja. Í mann­tölum frá 1835 til 1850 er bærinn kallaður Látrar en 1855 til 1910 Látur og þannig er bærinn merktur nú með skilti við þjóðveg. Vestfirðingum ber ekki saman um hvora orðmyndina skuli nota. Hér er fylgt þeirri málvenju sem virðist vera útbreiddari þótt ekki sé hún endilega réttari.

Foreldrar Petrínu voru hjónin á Látrum, Ásgeir Kristjánsson (1829–1907) og Friðgerður Þórarins­dóttir (1830–1881), en þau höfðu bæði alist upp á þessum slóðum og verið samtíða með foreldrum beggja bæði á Eyri og Látrum áður en þau hófu búskap sinn á Látrum. Ásgeir og Friðgerður eignuðust 9 börn á árunum 1854 til 1867 en aðeins 5 stúlkur komust upp og var Petrína yngst þeirra. Hinar voru Þóra (1854–1936), Anna (1856–1938), María (1860–1944) og Kristjana (1861–1944). Ásgeir eignaðist hinsvegar þrjár stúlkur framhjá Friðgerði með þremur konum, fyrst Kristínu 1860, hún varð skammlíf, en síðan stúlku 1874 sem af einhverjum ástæðum var skírð Friðgerður (1874–1953) – sem var og var kölluð dvergur – og loks Guðrúnu (1879–1961) tveimur árum áður en Friðgerður Þórarinsdóttir lést en þá voru Ásgeir og Friðgerður skilin að borði og sæng.

Látur eða Látrar í Mjóafirði. Látranúpur í baksýn.

Þetta kvennafar á Ásgeiri hefur hugsanlega orðið til þess að Friðgerður flutti frá honum og bjó síðustu árin eða frá árinu 1877 í hjáleigu eða úthýsi frá Látrum eða einhverjum húskofa í landi Látra ásamt dætrum sínum Önnu en lengst Kristjönu. „Húskona, lifir á tillagi manns síns,“ segir sóknarmannatalið um Friðgerði síðustu æviár hennar. 

Aðrir hafa getið sér þess til að Friðgerður hafi verið „biluð á geði“ þegar þarna var komið sögu. Milli þessara tveggja skýringarþátta gæti svo verið orsakasamband.

Síðasta barns­móðir Ásgeirs, Guðrún Elíasdóttir (1839–1918), móðir Guðrúnar Ásgeirs­dóttur, var bústýra hjá Ásgeiri til dauðadags hans 1907 og hjá þeim ólst Guðrún Ásgeirsdóttir upp. Guðrún Jónsdóttir (1848–1909), móðir Friðgerðar „dvergs“, giftist hinsvegar bónda á öðru býli á Látrum, sem var stundum kallað „Látrakot“, og ól þar upp dóttur þeirra Ásgeirs.

Engin lýsing er þekkt á Friðgerði Þórarinsdóttur en Runólfur Þórarinsson, sem lengi var í menntamálaráðuneytinu, lýsir Ásgeiri Kristjánssyni svo eftir föður sínum: „Ásgeir var stórskorinn í andliti, nefstór með lið á nefi, dökkhærður með svartar, loðnar auga­brúnir. Hann var þreklega vaxinn og hendur mjög sterklegar enda mikill mannskaps­maður. Vínhneigður þótti hann á yngri árum, tók 40 lítra „kvartel“ í kauptíðinni á vorin og ávallt á 3 - 4 lítra kút þegar ferð féll í kaupstað. ... Ásgeir bjó lengi á Látrum en hætti búskap árið 1904 og fluttist þá í Kleifarkot ... og var á sveitinni 4 síðustu ár ævinnar en 12 síðustu árin var hann blindur ... Árið 1893 var mikill bruni á Látrum og brann þá íbúðarhús hjá Ásgeiri og húsmunir allir og kýr köfnuðu í reyk“ (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 1957, bls. 132).

Allar dætur þeirra Ásgeirs og Friðgerðar ólust upp á Látrum en fóru þó að tínast að heiman upp úr fermingu eins og títt var. Þóra fór í Skálavík innri um og upp úr 1870 og þar virðist hún hafa verið alla ævi, ógift og barnlaus. Hún var þó skráð í Keldu 1920 og fékkst þá við vefnað en 1930 var hún aftur komin sem húskona í Skálavík.

María fór ung í Heydal, var svo nokkur ár heima en síðan var hún í Hörgshlíð og Botni í Mjóafirði. Hún var vinnukona á Ísafirði 1880 en næst er vitað af henni á Kleppi 1910 og þar mun hún hafa dvalið til æviloka. Ekki er vitað hvenær né hvernig hún bilaðist á geði.

Anna var hjá Friðgerði móður sinni á Látrum fyrst eftir að hún flutti frá Ásgeiri. Hún var vinnukona í Botni 1880 en 1888 var hún í Ögri og hafði þá tekið saman við Halldór Jóns­son (1861–1891) úr Gufudal í Gufufirði við Breiðafjörð. Árið eftir voru þau í Súðavík þar sem þeim fæddist dóttirin Guðjóna Sigríður (1890–1961) sem síðar var jafnan nefnd Sigríður og fyrir kom að hún væri skráð Sigríður Guðjóna í manntali. Árið 1890 voru þau öll komin í Víðidalsá í Stein­grímsfirði en Halldór lést ári síðar, drukknaði. Ekki er í bráð vitað hvar eða hvernig Anna var næsta ár en hún var í Hagakoti í Ögursveit 1892 hjá Kristjönu systur sinni og Einari manni hennar og þremur börnum þeirra. Í Haga­koti var þá líka Skarp­héðinn mágur hennar sem hafði verið giftur Petrínu systur hennar sem þá var látin fyrir tveimur árum. Skarphéðinn hafði þá hafið sambúð með Pálínu Árnadóttur og þau búin að eignast fyrsta barn sitt, Petrínu.

Sigríður Halldórsdóttir og Guðjón Guðmundsson á Eyri við Ingólfsfjörð. Sigríður og eldri dætur Skarphéðins voru systrabörn.

Anna var komin með dóttur sína til Ísafjarðar 1896 og þar var hún nærfellt tvo áratugi nema 1901 var hún barnfóstra á Laugabóli í Skjaldfannardal og hugsanlega einhver ár þar í kring en 1903 var hún komin aftur til Ísa­fjarðar. Þar voru þær mæðgur þegar þangað kom ungur maður frá Eyri í Ingólfsfirði, Guðjón Guðmundsson (1890–1971) að nafni, og þau Sigríður stofnuðu til hjú­skapar. Guðjón var sjómaður á Ísafirði og kunni vel við sig og þar höfðu þau Sigríður áform um að setjast að til frambúðar þegar faðir hans, Guðmundur Arngrímsson bóndi á Eyri, féll frá. Móðir Guðjóns bað hann þá að koma heim til að annast búið og það gerði hann, hálfnauðugur í fyrstu. Hann flutti þangað með Sigríði konu sinni og tveimur dætrum, gerðist virtur bóndi og hreppstjóri. Anna Ásgeirsdóttir flutti þangað með ungu hjónunum og bjó þar til dauðadags, þá orðin blind.

Reykskæl­ingar á árunum 1960 til 1972 muna eftir afkomendum Sigríðar og Guðjóns frá Ingólfsfirði, börnum þeirra Ingólfs og Gunnars Guðjóns­sona sem fæddust og bjuggu lengi á Eyri við Ingólfsfjörð, Láru og Halldóri Ingólfsbörnum og Sigríði, Ásdísi, Guðrúnu og Helgu Gunnarsdætrum.

Kristjana Ásgeirsdóttir var hjá móður sinni til dauðadags Friðgerðar 1881, síðustu árin ásamt Einari Bjarnasyni (1850-1899) innan af Langadalsströnd en eftir dauða hennar fluttu þau Einar í Hagakot þar sem þau bjuggu næstu 15 árin. Helga systir Einars var móðir Jóns Ólafs Jónssonar, sambýlismanns Önnu Skarphéðinsdóttur, og þeirra systkina. Einar lést 1899 og eftir það var Kristjana lengi á Hrafnabjörgum í Laugardal með börn sín, flutti síðar að Garðstöðum og loks að Ögri – í Ögurhús – þar sem fjölskyldan átti heimili sitt um alllangan tíma.

Kristjana og Einar eignuðust 10 börn en aðeins 2 urðu langlíf. Friðgeir Andrés (1882–1914)var elstur en hann drukknaði rúmlega tvítugur. Bjarni (1883–1905) dó tæpra 22 ára og Kristín Hansína (1884–1908) dó 23 ára. Hin börnin lifðu skemur nema Salóme og Kristján.

Salóme (1886–1953) var vinnukona í Ögri og síðan í Ögurnesi. Um hana segir í minningargrein: „Salóme var hin vænsta kona, bæði að likamlegu og andlegu atgervi. ... Hún var allra kvenna mest að líkams­burðum, kvenna högust og vandvirk og skyldurækin við öll sín verk svo af bar. Hún var stillt og ágæt í umgengni, vinmörg og vinföst. ... Árin sem Salóme Einars­dóttir dvaldi í Ögurnesi hélt hún heimili með Kristjáni bróður sínum og móður þeirra háaldraðri. Af einstakri alúð og fórnfýsi voru þau systkinin samhent um að gera móður sinni ævikvöldið sem fegurst og best“ (S.H.:Vesturland 19. des. 1953, bls. 2 og 4). Í minningargreininni kemur einnig fram að Salóme hafi veikst af heilahimnubólgu 26 ára gömul og eftir það virðist hún hafa þjáðst af höfuðverk sem að lokum varð til þess að síðustu 10 árin lá hún á Fjórðungssjúkra­húsinu á Ísafirði þar sem hún lést. Hún hélt þó andlegri heilsu til æviloka.

Kristján (1895–1977) var sjómaður og átti um tíma útgerð í Bolungarvík með öðrum manni. Um 1943 réðst hann í skipspláss í Hnífsdal og fór þá inn á heimili Einars Steindórssonar og Ólafar Magnúsdóttur þar sem hann bjó næstu 20 árin og síðan næstu ár hjá Hansínu dóttur þeirra. Kristján vann í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal eftir að hann hætti sjómennsku og þangað til Parkinsonssjúkdómur gerði hann óvinnufæran. Hann var hagyrðingur.

Friðgerður Ásgeirsdóttir eignaðist ekki afkomendur en Guðrún Ásgeirsdóttir (1879–1961) giftist Þórarni Einarssyni (1876–1968) árið 1903. Guðrún Ásgeirsdóttir  var yngst dætra Ásgeirs bónda á Látrum í Mjóafirði en hana eignaðist hann með Guðrúnu Elíasdóttur (1839–1918) sem var ráðskona hans eftir að Friðgerður, eiginkona hans, skildi við hann að borði og sæng. Guðrún Ásgeirsdóttir ólst því upp hjá foreldrum sínum á Látrum en Guðrún Elíasdóttir var þó aðeins skráð sem vinnukona hjá Ásgeiri síðasta árið sem hann taldist bóndi á Látrum, 1897, þá orðinn næstum blindur. Árið eftir hafði ungur maður tekið við jarðarhluta Ásgeirs, Þórarinn Einar Einarsson (1876–1968) ásamt bústýru sinni og „frillu“, eins og presturinn skráði hana, Elínu Jensdóttur (1866–1901), en þau höfðu árið á undan verið vinnuhjú hjá Ásgeiri. Þórarinn hafði áður verið sjómaður í Ögurnesi en hann var síðan viðloða Látur frá árinu 1897 til 1912, húsmaður frá 1903. Ásgeir og mæðgurnar voru áfram á heimilinu eftir að Þórarinn gerðist þar bóndi og þar voru einnig foreldrar Þórarins, Ólöf Þórarinsdóttir og Einar Kristján Torfason. Ásgeir og Guðrún Elíasdóttir voru sögð „í dvöl“ hjá Þórarni á Látrum. Á heimilinu var líka Friðgerður Skarphéðinsdóttir, dótturdóttir Ásgeirs, en hún fór fljótlega til föðursystur sinnar inn í Botn í Mjóafirði.

Þórarinn eignaðist tvö börn með Elínu Jensdóttur, Elías Jens (1899-1981) og dreng sem fæddist andvana eða dó nýfæddur í maí 1900 en móðir hans dó síðan í ársbyrjun 1901, hugsanlega af þeim barnsförum. Það ár var Ásgeir aftur skráður bóndi á Látrum með Guðrúnu Elíasdóttur sem ráðskonu og Guðrúnu dóttur þeirra sem vinnukonu. Árið 1903 var heimilisfólkinu enn lýst með sama hætti, Þórarinn var húsmaður en nú var hann giftur Guðrúnu Ásgeirsdóttur. Guðrún Elíasdóttir var húskona. Þannig bjuggu þau næstu árin eða til 1912 nema frá árinu 1904 til æviloka var Ásgeir hreppsómagi í Kleifakoti, fyrrum efnabóndi orðinn blindur og eignalaus.

Eftir að Guðrún Ásgeirsdóttir giftist Þórarni Einarssyni voru þau áfram í húsmennsku á Látrum. Húsmennskan þýddi að þau höfðu ekki jarðnæði á Látrum heldur voru upp á aðra bændur á Látrum komin en þeir voru tveir og jafnvel þrír. Búskapur þeirra hefur ekki gengið vel því að frá 1912 þurftu þau að láta börn sín frá sér í fóstur, sum reyndar fyrr. Þau voru næsta ár á Eyri í Ísafirði – til aðgreiningar frá Eyri í Mjóafirði – Þórarinn skráður þurfamaður en árið eftir og lengi síðan vinnumaður á bænum Vatnsfirði. Guðrún var tvö ár skráð á Eyri en 1915 var hún ekki skráð í Vatnsfjarðarsókn, hugsanlega heilsuveil að leita sér lækninga utan sveitar. Samband þeirra Þórarins hefur þó varað eitthvað lengur því að yngsta barn þeirra fæddist um mitt ár 1916 en um það leyti fór Guðrún sem sjúklingur suður á Landakotsspítala. Þar náði hún heilsu og þar ílentist hún sem starfsmaður og bjó á sjúkrahúsinu til æviloka. Hún fékk orð fyrir að vera stjórnsöm og ráðrík og að láta málefni spítalans til sín taka hvenær sem tækifæri gafst og þótti ýmsum nóg um.

Hér á eftir er gerð svolítil grein fyrir börnum Guðrúnar Ásgeirsdóttur og Þórarins og afdrifum þeirra.

Elías Jens ólst upp hjá föður sínum og Guðrúnu fyrstu árin en frá árinu 1911 var hann tökubarn á bænum Reykjarfirði og þar var hann smali 1913 og síðan vinnumaður til fullorðinsára. Hann var vetrarmaður á Látrum 1930, síðar bóndi í Botni, Kleifakoti og á Eyri í Mjóafirði, ætíð ógiftur og barnlaus.

Fyrsta barn Guðrúnar og Þórarins fæddist 1904, stúlka sem fékk nafnið Elín Ólöf eftir fyrri sambýliskonu Þórarins og Ólöfu móður hans. Slíkar nafngiftir voru algengar á þessum tíma og miklu lengur. Elín (1904–1996) var hjá foreldrum sínum fyrstu árin en frá 9 ára aldri var hún á sveitarframfæri í Skálavík í Mjóafirði, „mál- og heyrnarlítil“. Þar var hún fram á fullorðinsaldur en lengst af var hún vinnukona á Þúfum, „ógift, barnlaus og annarra hjú alla ævi“ eins og segir í inngangi að hlýlegri minn­ingargrein um hana í Mbl. 3. febr. 1996 eftir systkinin frá Þúfum.

Annað barn Guðrúnar og Þórarins var Jóhannes (1906–1998) sem var bóndi á Grund (1937–1946) og Skarði (1946–1969) í Skötufirði en síðast verkamaður í Bolungarvík. Kona hans var Guðmunda Margrét Jóhanna Magnúsdóttir (1916–1992) og með henni átti hann 12 börn á árunum 1934 til 1953, 12 komust upp og 9 þeirra eignuðust afkomendur þannig að þeir eru orðnir fjölmargir. Jóhannes var fyrstu árin hjá foreldrum sínum en frá 6 ára aldri var hann í fóstri hjá Þóru Kristínu, föðursystur sinni, sem bjó á Kleifum í Skötufirði með Magnúsi Guðmundssyni, manni sínum, en þessi hjón höfðu áður fóstrað Bjarna Bjarnason (afa) og Kristín reynst honum vel. Jóhannes var hjá þessum fósturforeldrum sínum þangað til hann hóf sjálfur búskap á Grund í Skötufirði. 

Guðrún Ásgeirsdóttir ásamt tveimur barna sinna, Kristjönu Halldóru og Jóhannesi

 

Jóhannes var lágvaxinn og snaggaralegur, góður og elskulegur karl að sögn heimildarkonu og einn frændi hans segir að hann hafi verið „lítill, snaggaralegur karl, reykti eins og skorsteinn og andlitið eins og bókfell! Afskaplega kurteis og þægilegur karl.“

Þriðja barn Guðrúnar og Þórarins var Ásgeir (1908–1988) sem var þroskaheftur en ólst upp hjá Halldóri Gunnarssyni bónda og hreppstjóra á Keldu í Mjóafirði. Halldór hafði ráðskonu, Jónu Dósóþeusdóttur sem gæti e.t.v. hafa talist sambýliskona hans. Þau voru bæði barnlaus en voru með 3 fósturbörn, þegar Ásgeir kom til þeirra, en hann einn taldist þó á sveitarframfæri, „ólæs, fábjáni“ og á öðrum stað sagður „málhaltur“. Hreppurinn borgaði ekki meðlag með hinum börnunum. Eftir fráfall Halldórs fóstra hans var hann áratugum saman áfram á Keldu hjá Ólafi Steinssyni, þeim sama og fóstraði Guðrúnu systur hans unga. Að öðru leyti hefur ævi Ásgeirs ekki verið rakin en hann mun hafa búið allt sitt líf á æskuslóðunum.

Fjórða barnið var Kristjana Halldóra (1911–1994) sem frá tveggja ára aldri var alin upp hjá Ingibjörgu föðursystur sinni í Vogum og Ólöfu föðurömmu sinni en Ingibjörg bjó þar með Þórði Jónassyni, eiginmanni sínum. Kristjana ólst upp hjá þessu fólki fram undir fermingu en þegar Ingibjörg og Þórður fluttu til dóttur sinnar í Vestur-Húnavatnssýsluna 1924 fór hún til föður síns í Vatnsfjörð þar sem hann var þá vinnumaður. Hún fermdist 1927 og fékk þá umsögnina: „Les laklega, mikið málhölt. Kann sæmilega. Var ekki kennt nema fræðin. Hegðun góð.“ Húsbændur hennar voru sagðir Páll Pálsson og Björg Andrésdóttir í Vatnsfirði en faðir hennar ekki nefndur til sögunnar þótt hann væri á staðnum. Þegar Þórarinn flutti með son sinn og sambýliskonu frá Vatnsfirði flutti Kristjana einnig en ekki hefur tekist að grafa upp hvar hún var næstu ár þrátt fyrir skoðun á manntalinu 1930 bæði sunnan og norðan Ísafjarðardjúps og allt suður í Dýrafjörð.

Það er hinsvegar vitað að Kristjana fluttist til Reykjavíkur 1937 og átti þar heima á 9 stöðum til ársins 1952 en frá árinu 1953 bjó hún á 4 stöðum með Ragnari Emil Guðmundssyni allt til æviloka. Þau áttu ekki börn en fóstruðu Kristjönu Helgu Thorarensen fyrstu 3 ár hennar og urðu fósturafi og -amma hennar og yngri systkina hennar upp frá því. Kristjana var „mjög röggsöm kona og hlífði sér aldrei. Hún var forkur til vinnu og nautsterk! Hún var mikil prjóna- og saumakona og þegar Pétur Eyfeld fór að framleiða stúdentshúfur í kringum 1955 byrjaði hún að sauma hvítu kollana á húfurnar og var ein í þeim saumaskap til dauðadags. Amma átti svör við öllu og oftar en ekki fylgdi þeim glettni. Hún sagði alltaf „það á að lempa börn, ekki þvinga þau“ og það sýndi hún svo sannarlega í verki. Ef henni fannst á einhvern hátt að sínum vegið var hún fyrst til að bera hönd fyrir höfuð þeim. Hún var óeigingjarnasta manneskja sem ég hef kynnst og svo margt sem ég á henni að þakka. Þó amma hafi verið lágvaxin og nett virkaði hún stór og umvefjandi,“ eins og Kristjana H. Thorarensen segir um hana í tölvupósti.

Guðrún Þórarinsdóttir

Fimmta barn Guðrúnar og Þórarins fæddist í Vatnsfirði í júní 1916 eða um það bil sem slitnaði endanlega upp úr sambúð þeirra hjóna. Stúlkan var skírð Guðrún (1916–2013). Sex vikna gömul fór hún í fóstur til Bjargar Þórðardóttur og Valdemars Steinssonar í Vatnsfjarðarseli sem þar bjuggu á þessum árum ásamt foreldrum Valdemars og systkinum hans, Bjarna, Ólafi, Sigurði og Margrétu og þar var raunar Elías hálfbróðir Guðrúnar í vinnumennsku. Hún ólst síðan upp hjá þessu sama fólki til 7 ára aldurs en þá fóru Sigurður og Ólafur Steinssynir að búa á Eyri í Ísafirði ásamt móður sinni og Margréti systur sinni. Fimm árum síðar eða 1928 var Ólafur kominn inn í Hörgshlíð með Guðrúnu þar sem hann bjó það ár á móti Sigríði Markúsdóttur og Guðmundi Guðmundssyni. Þegar Guðrún fermdist var lestrar- og kristnifræðikunnátta hennar sögð lakleg en hegðun ágæt. Guðrún var eitthvað heyrnarskert eins og fleiri systkini hennar því að hún var nokkuð blæst á máli. Hún fékk skæða eyrnabólgu í æsku sem olli skemmdum á eyrum en ekki hefur þó þótt ástæða til að leita læknis sem hefði getað bjargað heyrninni.

Árið 1930 hafði Ólafur Steinsson gerst ráðsmaður hjá húsfreyjunni í Svansvík og þar var Guðrún með honum 1931 og 1932 og titluð vinnukona, þá 15 og 16 ára gömul. Næstu ár var hún vinnukona á ýmsum bæjum við Djúp og 1939 var hún vinnukona á Ósi í Bolungarvík. Guðrún bjó um tíma í Reykjavík á 5. tug 20. aldar og þar hefur hún líklega gerst ráðskona hjá Marís Kristjáni Gústaf Haraldssyni (1908–2007) sem hún hafði kynnst í Bolungarvík en 1946 missti hann konu sína frá tveimur börnum. 

Árið 1948 fluttu þau Marís aftur til Bolungarvíkur og árið 1952 giftu þau sig. Þau eignuðust fjögur börn á árunum 1948 til 1956 sem öll eiga afkomendur. Marís var tré- og húsgagnasmiður í Bolungarvík en Guðrún var kunn prjónakona í Bolungarvík og víðar. Þar ráku þau hannyrðaverslun og prjónastofu síðustu fimm árin. Þau fluttu til Reykjavíkur 1972, þar sem Marís var húsvörður, en síðast voru þau á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þessar upplýsingar um Guðrúnu eru mest úr kirkjubókum sem ber ekki í öllu saman við það sem sagt er í inngangi að minningargreinum um hana í Morgunblaðinu 19. ágúst 2013.

Hér hefur verið sagt frá börnum Guðrúnar Ásgeirsdóttur og Þórarins Einarssonar svo og börnum hans með fyrri konu. Guðrún og Þórarinn skildu formlega og í Vatnsfirði tók Þórarinn upp samband við Þorgerði Helgu Halldórsdóttur (1884–1964) og þau eignuðust Halldór Jakob (1927–1973) sem fæddist í Vatnsfirði. Eftir að Þórarinn fór frá Vatnsfirði var hann á Þúfum (1928–1942) þar sem þau Þorgerður ólu upp son sinn en síðan fluttu þau í Miðhús en Halldór varð eftir á Þúfum sem vinnumaður. Frá Miðhúsum fóru þau í Skálavík innri og síðast í Hörgshlíð.Halldór var kennari í Reykjavík.

Vitað er að Guðrún Ásgeirsdóttir heimsótti æsku­slóðirnar og hélt sambandi við börn sín eftir að hún flutti suður. Hún sendi t.d. Jóhannesi fatnað á hans mörgu börn og eflaust hitti hún Kristjönu og Guðrúnu á meðan þær voru samtíða syðra en samgöngur þeirra tíma gáfu ekki kost á nánum samskiptum við dreifðan barnahóp. Það er líka vitað að Jóhannes, Kristjana og Guðrún voru í góðu sambandi sín á milli en minna er vitað um tengsl þeirra við Elías, Elínu og Ásgeir sem bjuggu alla ævi í fæðingarsveitinni þar sem faðir þeirra bjó líka.

Börn Guðrúnar Ásgeirsdóttur voru systra­börn við Önnu, Friðgerði og hin Skarphéðinsbörnin og þess vegna er þeim gefinn svo mikill gaumur hér. Frændsemin við þau hefur þó ekki verið rækt jafn vel og við börn sumra hinna systranna frá Látrum. En til að hægt sé að rækja frændsemi verður fólk að vita um tilvist hennar. Þessi samantekt getur vonandi stuðlað að vitneskju þeirra sem hafa áhuga á henni.