Um börn Önnu
Hrólfur fór 4 - 5 ára í fóstur til Guðmundar (1886-1926) föðurbróður síns á Hanhóli sem langaði til að hafa strák á heimilinu en kom aftur til móður sinnar þegar faðir hans drukknaði árið 1923. Guðmundur tók Helgu systur Hrólfs að sér eftir að Jón dó en hún lést árið eftir. Fyrir atbeina fyrrnefnds Elíasar Pálssonar kaupmanns á Ísafirði gat Anna komið Hrólfi í smíðanám en skömmu eftir að það hófst fór fóstra hans á Hanhóli fram á að hann kæmi aftur til hennar til að hjálpa til við búskapinn því að Guðmundur fóstri hans var þá látinn. Búskapur mun ekki hafa átt vel við Hrólf og fljótlega var hann kominn í Bolungarvík aftur til móður sinnar og eftir það bjó hann með henni til dauðadags hennar 1968. Hann var landmaður á aflaskipinu Tóta og á sumrin á síld á bát sem hét Svala, var þó alltaf sjóveikur. Um tvítugt fór hann að fara á vertíð á Suðurnesjum um vetur þar sem tekjumöguleikar voru betri en fyrir vestan. Um 1946 fór hann í fasta vinnu hjá Einari Guðfinnssyni, var flatningsmaður og við aðra fiskverkun. Árið 1955 vantaði Jón Friðgeir, son Einars, lagtækan mann á verkstæði og réði Hrólf til sín og þar vann hann til 75 eða 76 ára aldurs.
Hrólfur var einhleypur en eignaðist Valgerði (1945-2001) með Margréti Hjaltadóttur (1905-1977), systur Elísabetar konu Einars Kr. Guðfinnssonar útgerðarmanns í Bolungarvík. Hálfsystir Valgerðar sammæðra er Birna Hjaltalín ekkja Vagns skipstjóra Hrólfssonar í Bolungarvík.
Valgerður ólst upp hjá móður sinni í Reykjavík en var í Bolungarvík hjá frændfólki sínu á sumrin. Hrólfur hélt heimili með móður sinni en síðustu 15 árin, eftir að hún dó, var hann í fæði hjá Guðrúnu systur sinni. Eftir það sá hann sjálfur um matseld en þær systur hans hjálpuðu honum við þrif.
Bjarni Jón Hjaltalín fór í fóstur til Guðmundar Jónassonar og Sigríðar Sigfreðsdóttur eins og fyrr segir. Á sumrin var hann hjá Sigurði hálfbróður Guðmundar í Botni í Mjóafirði og var þar samtíða frænku sinni, Guðfinnu Bjarnadóttur, sem hélt alltaf mikið upp á hann. Guðmundur og Sigríður vildu kosta Bjarna í skóla því að hann hafði góða námshæfileika en hann afþakkaði það, taldi að þau væru búin að hafa nóg fyrir sér. Hann fór að vinna almenn verkamannastörf í vegavinnu og fiskvinnu og þótti afbragðs beitningamaður. Bjarni fékk botnlangabólgu og lést 1944 aðeins 28 ára.
Þorkell var í Hörgshlíð með móður sinni á hverju sumri til 1932 en um vetur voru þau í Bolungarvík. Hann þótt góður námsmaður en lauk aðeins unglingaprófi eins og algengast var. Hann vakti snemma athygli sem afburða beitningamaður eins og Bjarni bróðir hans og vann gjarnan sem slíkur framan af en einnig aðra almenna verkamannavinnu eins og Bjarni. Ásamt Bjarna og tveimur öðrum ungum mönnum keypti hann fólksbíl sem þeir nefndu Veiðibjölluna en höfðu takmörkuð not af henni þar sem vegurinn fyrir Óshlíðina var ekki opnaður fyrr en haustið 1949.
Þorkell tók Meiraprófið á Ísafirði 1947 og á árunum 1944 til 1949 eða jafnvel lengur ók hann vörubíl fyrir Einar Guðfinnsson með fisk og við grjótflutninga í hafnargarða í Bolungarvík. Þorkell eignaðist annan fólksbíl og síðar fólksflutningabíl en hann annaðist lengi áætlunarferðir á eigin vegum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar.
Samhliða því starfi vann hann hjá Íshúsfélagi Bolungarvíkur sem var hlutafélag þar sem Einar Guðfinnsson var stór hluthafi. Þorkell var áhugamaður um berjatínslu og skrapp stundum í berjamó í Hnífsdal á milli ferða milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Hann hafði líka gaman af að renna fyrir silung og fór með fjölskylduna í veiðiferðir inn í Djúp sem á þeim tíma þýddi akstur suður á Barðaströnd og norður yfir Þorskafjarðarheiði.
Þorkell giftist Margréti Þorgilsdóttur (1925-2003) og átti með henni Guðlaugu Málfríði 1944, Helgu Jónu 1947, Katrínu 1950, Bjarna Jón 1957 og Önnu Sigríði 1964.
Eftir dauða föður síns var Petrína í fóstri hjá Ríkeyju föðursystur sinni á Klukkulandi í Dýrafirði en eftir að hún kom aftur til móður sinnar vann hún sem barnfóstra á heimilum í Bolungarvík og eitt sumarið fór hún í vist inn á Ísafjörð. Skömmu eftir að hún kom þangað veiktist húsmóðirin af berklum og fór suður til lækninga en Petrína var send heim til Bolungarvíkur. Þá var móðir hennar komin inn í Hörgshlíð en Bjarni Bjarnason sótti hana niður í Bolungarvík og fór með hana til Friðgerðar móðursystur hennar fram í Hanhól þar sem þau bjuggu þá og þar var hún um sumarið. Eftir þetta var Petrína í vistum, m.a. var hún einn vetur hjá Sigurjóni móðurbróður sínum í Reykjavík eftir að kona hans lést af barnsförum 1938. Vorið eftir kom hún vestur með Guðbrand Grétar, son Sigurjóns, og Skarphéðin afa sinn með sér og hafði ætlað sér að taka drenginn í fóstur. Hún var þá orðin ófrísk að Einari, elsta syni sínum, þannig að úr varð að bæði Grétar og Skarphéðinn fóru til móður hennar sem ól Grétar upp fram yfir fermingu.
Petrína tók virkan þátt í félagsmálum, starfaði með Kvenfélaginu Brautinni og kvennadeild Slysavarnarfélagsins Hjálpar og var kjörin heiðursfélagi í báðum félögunum. Hún var meðal fyrstu kvenna til að standa fyrir Þorrablóti í Bolungarvík sem hefur verið árlegur viðburður síðan þar sem þátttakendur eru eingöngu hjón eða trúlofað fólk. Konurnar koma í upphlut eða peysufötum á Þorrablótið sem er haldið 1. laugardag í Þorra í Félagsheimilinu.
Petrína giftist Hálfdáni Einarssyni (1917-2013) skipstjóra og aflakóng í Bolungarvík en börn þeirra eru Einar (1939-2015), Anna Jóna (1940), Óskar (1942-2007), Sigríður (1947) og Jóhanna (1951) en öll nema Jóhanna hafa verið búsett í Bolungarvík. Petrína fór með Hálfdáni til Siglufjarðar á hverju sumri á meðan síld veiddist og vann þá í síld og þegar börnin voru orðin stálpuð og uppkomin fór hún að vinna í Rækjuvinnslunni í Bolungarvík um miðjan 7. áratuginn. Hún vann þar um árabil þangað til hún slasaðist og náði aldrei fullri heilsu eftir það. Petrína og Hálfdán stunduðu berjatínslu á hverju hausti og ræktuðu kartöflur.
Guðrún var á sumrin með móður sinni í Hörgshlíð og gætti barna Brynjólfs fóstursonar Sigríðar og Guðmundar. Hún var síðast í Hörgshlíð sumarið 1933 en sumarið eftir var hún barnfóstra hjá Gunnfríði Bjarnadóttur dóttur Bjarna Arons Þorlákssonar í Botni í Mjóafirði en Gunnfríður hafði farið til að vinna á Kristneshæli í Eyjafirði. Þar kvæntist hún Helga Daníelssyni og þau hófu búskap í Björk í Eyjafirði með Guðrúnu sem barnfóstru. Eftir það gætti hún barna í Bolungarvík og bjó hjá móður sinni en eftir að Grétar Svanberg kom vestur gætti hún hans og geita móður sinnar og sá um önnur heimilisstörf til að Anna gæti stundað vinnu sína. Guðrún fór í vist hjá Einari Guðfinnssyni haustið 1940 en um vorið fór hún að vinna í Hraðfrystihúsinu og vann þar næstu 3 árin. Hún fór aftur að vinna úti 1975 og þá hjá Rækjuvinnslunni þar sem hún vann til 1994.
Guðrún giftist Halldóri Bjarnasyni (1920-1998) verkstjóra og bifreiðarstjóra í Bolungarvík en fyrstu árin bjuggu þau ýmist hjá foreldrum hans eða í leiguhúsnæði þangað til þau fluttu í eigið hús á Holtastíg þar sem Guðrún bjó næstu 63 árin en Halldór lést 1998. Þau eignuðust Bjarna1944, Kristínu 1949 og Jón Ólaf 1961. Tvíburi á móti Bjarna fæddist andvana.