Hjúskapur og ævilok Sigfúsar og Guðrúnar
Víkur nú sögunni aftur til Sigfúsar frá Flöguseli sem hafði verið vinnumaður í annað sinn í Auðbrekku hjá Möðruvallapresti þangað til presturinn flutti burt 1839 en þá mun Sigfús hafa farið til Björns Þorlákssonar bónda og trjáræktarmanns í Fornhaga en hann taldist til betri bænda, sonur Þorláks bændahöfðingja og dannebrogsmanns í Skriðu. Björn hafði þá misst tvær eiginkonur en var nú giftur dóttur séra Gamalíels á Myrká sem hefur vafalítið gefið Sigfúsi góð meðmæli. Sigfús hafði þá verið í vinnumennsku hjá prestsekkju, prestum og lækni á Ásgerðarstöðum, Auðbrekku og Hofi og eignast lausaleiksbörn á báðum fyrrnefndu bæjunum. Þess var þó ekki að vænta á heimilum svo grandvars fólks og Sigfús sjálfur sagður frómur. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Í Fornhaga var Sigfús þó aðeins eitt ár því að 1840 var hann kominn fram í Sörlatungu sem vinnumaður.
Árið 1841 fór Guðrún Friðfinnsdóttir húskona frá Féeggstöðum með Jóhann son sinn í Sörlatungu en þar var Sigfús vinnumaður, lítt læs og fávís að sögn sr. Gamalíels. Árið eftir færir sr. Páll Jónsson kirkjubókina og segir að Sigfús lesi nokkuð, sé ekki óráðvandur og kunnátta sé í meðallagi. Reyndar er gaman að geta þess að sálmaskáldið skráir um sjálft sig þetta ár og síðar að hann sé læs, les dálítið, les illa. Hegðun í meðallagi, ekki vænn, hegðun má ekki verri vera. Öll þekking í molum, þekking aum, illa að sér, veit lítið. Páll hefur þó alltént haft kímnigáfuna í góðu lagi.
Nærtækt er að geta sér þess til að þar í Sörlatungu hafi tekist góð kynni með Guðrúnu og Sigfúsi þrátt fyrir ólíkt upplag og lestrarkunnáttu, jafnvel mætti álykta að þau hafi fellt hugi saman eins og það heitir á fínu máli. Þeirri spurningu verður aldrei svarað hvers vegna Guðrún, þessi afbrigðisgreinda kona, gat lagt lag sitt við Sigfús, svo ófríðan mann og ókunnandi en hann var þó „sæmilega viti borinn“ þó að hann hafi ekki náð að læra kverið fyrr en um tvítugt og sjálfsagt aldrei vel. Líklega hefði hann þó getað tileinkað sér það fyrr ef foreldrar hans hefðu haft burði til að kenna honum að lesa. Árið 1842 voru þau Guðrún bæði komin í Sörlatungu sem vinnuhjú og þar voru þau líka í byrjun árs 1843. En nú ber kirkjubókunum ekki lengur saman. Sóknarmannatalið segir að þau hafi verið vinnuhjú í Sörlatungu í byrjun árs 1844, Guðrún sögð kona Sigfúsar, en Guðmundur Sigfússon er ekki nefndur á nafn þótt hann hafi fæðst haustið 1843. Í prestþjónustubókinni eru Guðrún og Sigfús hinsvegar sögð ógift í Lönguhlíð en staða þeirra ekki skilgreind nánar. Guðmundur hefur verið skírður í kirkju því að vígsluvottar voru fyrrum húsbændur foreldranna í Sörlatungu og söfnuðurinn. Guðmundur var fæddur utan hjónabands og því þriðja lausaleiksbrot þeirra beggja en í lok október þetta ár giftu þau sig, Sigfús og Guðrún. Þau höfðu þó ætlað að láta gifta sig fyrir fæðingu barnsins en „óviðráðanlegar ástæður“ munu hafa komið í veg fyrir það á síðustu stundu. Í byrjun árs 1845 eru þau skráð húsfólk í Lönguhlíð, Sigfús bóndi og Guðrún kona hans. Jóhann sonur Guðrúnar er skráður Pálsson en ekki Sigurðsson en hvorki Guðmundur né Guðjón komast á blað.
Samræmið í opinberum gögnum þessa tíma var þó ekki til að hrópa húrra fyrir. Eins og að framan segir voru Sigfús og Guðrún sögð húshjón í Lönguhlíð þegar Guðmundur var skírður en þegar þau giftu sig hálfum mánuði síðar var Sigfús sagður vinnumaður í Sollatungu (Sörlatungu) en Guðrún húskona í Lönguhlíð. Hugsanlega er þetta botninn í hringlandanum og ósamræminu, Sigfús hafi verið vinnumaður í Sörlatungu eftir að Guðrún var farin í Lönguhlíð sem húskona til Guðmundar smiðs sem þar bjó enn og hún hafði kynnst sem barn þegar hún var þar á fermingaraldri. Það er hinsvegar afdráttarlaust í prestþjónustubókinni að Guðjón Sigfússon fæddist í Lönguhlíð í nóvember 1844 þar sem giftir foreldrarnir voru í húsmennsku. Þar voru þau síðan næstu ár og í manntalinu 1845 er Sigfús húsmaður í Lönguhlíð, „hefur grasnyt“ eins og Guðmundur bóndi, Guðrún sögð kona Sigfúsar, Guðmundur og Guðjón synir þeirra og Jóhann sonur konu. Eflaust hefur Guðmundur smiður í Lönguhlíð reynst yngri hjónunum vel og líklegt er að eldri sonurinn hafi fengið nafn sitt frá smiðnum.
Árið 1846 dró til mikilla tíðinda og vondra. Guðrún ól þá ófullburða dóttur, sem nefnd var María (f. 16. apríl) en dó vikugömul. Um vorið fluttu Sigfús og Guðrún í hjáleigu frá Barká en um haustið dó svo Guðrún sjálf úr giktsótt. Giktsótt (febris rheumatica) var fylgikvilli streptococcasýkinga og lýsti sér með hita og liðbólgum. Ennfremur fengu konur og menn bólgu í innri þekju hjartans og þeir sem ekki dóu úr sjúkdómnum sjálfum sátu oft eftir með skemmdar hjartalokur. Enn eru til þeir sem hafa hjartalokusjúkdóma af þessum toga en giktsótt sést ekki lengur, þökk sé pencillininu. Guðrún hefur því líklega fengið streptococcasýkingu í móðurlíf eftir fæðinguna, það var kallað barnsfararsótt og varð margri konunni að aldurtila. Hún hefur lifað af sýkinguna en dáið úr fylgikvillanum, giktsóttinni. Söguskýringar þessar og tilgátur eru frá Hjálmari Freysteinssyni lækni.
Nú voru góð ráð dýr. Sigfús var þó ekki á því að láta hugfallast þótt hann missti konuna frá tveimur ungum börnum og stjúpsyni og ekki var hann á því að láta börn sín frá sér á sveit frekar en foreldrar hans forðum. Jóhann Sigurðarson var settur í fóstur til Lilju móðursystur sinnar, sem þá var flutt vestur að Reykjum í Hjaltadal, en Sigfús fékk Rósu systur sína, 33gja ára, til sín sem ráðskonu. Vorið 1847 tók hann Sigurlaugu dóttur sína til sín frá Miðlandi að móður hennar látinni og flutti ásamt börnum sínum þremur í Bryta á Þelamörk og þaðan í Tittling í Kræklingahlíð sem svo hafði lengi heitið í opinberum skýrslum og hét lengi eftir það.
Ætli bæjarnafnið bendi ekki til að kotið hafi verið frekar lítið, 11,5 hundraða jörð? Nafnið þótti ekki smekklegt þegar fram í sótti og upp úr 1880 var reynt að kalla bæinn Þúfnavelli en tilraunin mistókst. Um aldamótin var farið að nefna bæinn Tilling (skrifað þannig en e.t.v. hugsað sem Tyllingur, þ.e. bær sem tyllt var utan í hlíðina!?) og rithátturinn Tildringur sást líka. Í hreppsbókina 1918 er skrifað Titlingur. Síðan árið 1919 heitir bærinn hinsvegar Hlíðarendi. Upphaflega nafnið loddi þó lengi við bæinn og sagan segir að Ólafur bankastjóri Thorarensen, sem eignaðist býlið síðar, hafi viljað uppræta gamla nafnið sem honum þótti ekki virðulegt. Hafi hann fengið hagyrðing – getgátur eru um Örn Snorrason kennara á Akureyri – til að gera vísu sem nafnfesti en hún varð svona:
Lögmannshlíðarvífum vænum
verður margt að bitlingi.
Þegar ekur upp úr bænum
Ólafur á Hlíðarenda.
Þriðja braglínan er á reiki í munnmælum. En svo fór að Ólafur seldi Hlíðarenda og þá bættist þessi við:
Margar hafa meyjar grátið,
mun svo verða enn um sinn.
Ólafur hefur eftirlátið
öðrum manni Hlíðarenda.
Sigfús fékk bústýru til sín í Tittling 1847. Hún hét Helga Þorsteinsdóttir (1795-1852), var ekkja og bjó áður í Hálfdánartungum í Norðurárdal, hjáleigu frá Silfrastöðum, en kotið var skammt framan við heiðarsporðinn þar sem ekið er upp á Öxnadalsheiði. Helga var fædd í Flatatungu í Austurdal í Skagafirði en fór með foreldrum sínum út að Reykjum í Hjaltadal og þaðan í innsveitir Eyjafjarðar 1818. Þar eignaðist hún Guðrúnu Jónsdóttur með vinnumanni þar í sveit en giftist síðan Bjarna Hallssyni frá Jórunnarstöðum í Eyjafirði og eignaðist með honum þrjár dætur og son sem dó ungur. Þau fluttu í Hofstaði í Hjaltadal 1827 og þaðan í Geldingaholt á Langholti 1829 og bösluðu síðan á ýmsum bæjum í Skagafirði, aðallega þó í Lýtingsstaðahreppi. Þau bjuggu í Hálfdánartungum þegar Bjarni dó úr umgangspest 1844. Helga bjó þar áfram til 1847 en þá flutti hún „norður“ með yngstu dótturina, Ingibjörgu, en hinar dætur Helgu, Guðrún, Helga og Sigríður, urðu eftir í Skagafirði. Helga Bjarnadóttir flutti reyndar fljótlega til Akureyrar og kemur meira við þessa sögu. Í júní 1848 giftist svo ekkillinn Sigfús ekkjunni Helgu, 10 árum eldri en hann, og næstu árin bjuggu þau ásamt börnum sínum í Tittlingi. Sigfúsi entist þó ekki lengi sambúðin fremur en fyrri daginn því að Helga lést í apríl 1852. Presturinn gleymdi reyndar að skrá lát hennar og greftrun í kirkjubók Lögmannshlíðarsóknar.
Ingibjörg Bjarnadóttir (1833-1896) fór fram í Nes í Saurbæjarhreppi 1849 en þar bjó Páll Hallsson föðurbróðir hennar. Hún kom aftur í Tittling en eftir að móðir hennar dó 1852 fór hún aftur fram í Fjörð og nú í Miklagarð en Guðrún húsfreyja þar og Sigurbjörg húsfreyja í Nesi voru systkinadætur. Ári síðar fór Ingibjörg til Helgu systur sinnar sem þá var gift Hansen-Jensen beyki á Akureyri. Þangað til Helgu fór líka Guðjón Sigfússon 1854 (skv. prestþjónustubókinni 1855) og þar var hann langt fram yfir tvítugt, lærði beykisiðn og starfaði lengst á Akureyri. Sigurlaug fór 1851 fram í Nes eins og stjúpsystir hennar og var þar næstu ár. Kirkjubók Lögmannshlíðarkirkju segir hana þá vera tökubarn en kirkjubók Saurbæjarkirkju kallar hana vinnukonu enda hafði hún þá aldur til að vera farin að vinna fyrir sér.
Sigfús reyndi að hokra áfram í Tittlingi eftir lát Helgu, fékk ráðskonu 1854 en var einn í húsmennsku næstu ár þegar nýir ábúendur höfðu tekið við jörðinni. Sigurlaug, Ingibjörg og Guðjón voru öll farin að heiman, eins og áður segir, og ekkert þeirra til vandalausra. Eina barnið sem fór til algjörlega vandalauss fólks var Guðmundur sem fór sem léttadrengur til presthjónanna í Glæsibæ 1856, sr. Daníels Halldórssonar og Jakobínu Soffíu Magnúsdóttur, og hjá þeim var hann fram undir tvítugt. Sú spurning hlýtur að vakna hvort fyrri kynni Sigfúsar af prestum í Auðbrekku hafi átt þátt í því að Guðmundur fékk svo góða vist sem vænta má að dvölin hjá presthjónunum hafi verið.
Sigfús var í sjálfsmennsku í Tittlingi til 1859 en árin 1860-62 var hann þar á sveitarframfæri hjá nýjum ábúendum og síðan í Lögmannshlíð 1862. Kirkjubókum ber ekki saman um hvort hann var í Lögmannshlíð eða aftur kominn í Tittling 1863 þegar hann dó það ár, 58 ára að aldri. Um banamein hans er ekki getið í kirkjubókum en í hreppsbókinni 1861 segir að hann sé „mjög brjóstveikur og mæðinn, farinn að eldast, á engan aðstoðarmann, hefur ofan af fyrir sér að nokkru leyti“ og árið eftir segir að hann geti „enga björg sér veitt sakir brjóstveiki, er orðinn öldungis félaus, þarf því að gefa með honum fulla meðgjöf.“
Það er eftirtektarvert fyrir okkur sem lifum á 21. öldinni, þegar meðalaldur karla sem deyja á Íslandi er 81 ár og kvenna 84, að Sigfús var sagður „farinn að eldast“ 56 ára gamall. Nú deyja 6,3 karlar og 5,4 konur af hverjum 1000 á aldrinum 60-64 ára en á árunum eftir 1860 dóu 65,7 karlar og 48,8 konur á þessum aldri af hverjum 1000 íbúum. Það þótti því ekki tiltökumál þótt útslitinn bóndi á rýrðarkoti missti heilsuna og létist. Tittlingsbúið var í flokki þeirra minnstu í hreppnum en þó alls ekki minnst, 1851 hafði Sigfús 2 kýr og kálf, 20 lembdar ær og 12 veturgamlar. Tamin hross voru tvö og 4 ótamin. Sigfús var í hópi lægstu útsvarsgreiðenda. Hann komst þó af þangað til heilsan brást.
Í köflunum hér á eftir verður rakin saga barna þeirra Sigfúsar og Guðrúnar. Fyrst verður sagt frá Sigurlaugu Sigfúsdóttur og síðan frá Jóhanni Sigurðssyni en kaflarnir um þau eru skrifaðir sem sjálfstæðar greinar þannig að þar er sitthvað endurtekið úr frásögninni hér að framan. Síðan verður rakin saga Guðjóns Sigfússonar en saga Guðmundar Sigfússonar er fléttuð saman við sögu Steinunnar Önnu Sigurðardóttur sem er aðalsöguhetjan í þessari samantekt. Rétt er þó að segja það strax að Guðmundur fór með presthjónunum í Glæsibæ fram í Hrafnagil þegar sr. Daníel gerðist þar prestur og prófastur. Guðmundur var hjá þeim í vinnumennsku þangað til hann brá sér lengra fram í dali til að ná sér í nefnda Steinunni Önnu fyrir konu. Hann flutti aftur í Glæsibæjarhreppinn með fjölskyldu sína, bjó á Einarsstöðum í Kræklingahlíð og Grjótgarði á Þelamörk áður en hann flutti í Garðshorn á Þelamörk en þar lést hann, tæplega sextugur að aldri. Synd væri að segja að langlífið hafi orðið mörgu þessu fólki að aldurtila. Það var ekki það sem var að.