Febrúar 1921
- Sá sólina í fyrsta sinn í vetur, fyrirboði hlýrri tíma. Dagarnir lengjast. Klippt af þremur hrossum
- Hreggi kom
- Mamma, Kári og Bára fóru út í Rauðalæk. Hvað er það sem bætir bú svo berist menn ekki í hauga?[1]
- Pabbi fór út á bæi.
- Bjarni[2] á Hamri, Hreggviður og Tryggvi[3] á Vindheimum komu.
- Friðbjörn[4] í Ási kom, pabbi fór suður að Bægisá
- Pabbi fór út í Steðja. Lína[5] kom og Kristmundur tvisvar.
- Pabbi fór yfir að Skriðu. Steindór gerði úti fyrir Kristmund
- Steindór fór í Bægisá
- Steindór fór suður í Bægisá.
- Kristmundur kom með lyppur og sykur. Steindór gerði úti fyrir hann[6].
- Jóhanna fór suður að Syðri-Bægisá.
- Steindór fór í kaupstað. Eiríkur[7] gekk um. Ég fór ofan í Rauðalæk. Páll[8] í Skriðu kom og Jósavin.
- Friðbjörn kom. Steindór kom heim úr kaupstað.
- Þá var stungið út úr ytra húsinu efra. Snorri á Syðri-Bægisá kom og sagði hvarf Kristjáns Þorvaldssonar[9]. Steindór fór út að Vindheimum til að sækja naut. Gísli[10] kom með það aftur. Surtlu var haldið.
- Steini var við að leita að Kristjáni í ánni, talið víst að hann hafi drukknað í Öxnadalsánni undan Syðri-Bægisá. Hafa fundist skíðin og taskan hans. Þorlákur kom og sótti svörð. Kristmundur kom.
- Þorlákur kom og sótti svörð. Steindór fór yfir að Lönguhlíð. Haraldur kom.
- Kristmundur kom, fékk heyjabýtti. Þorlákur kom og skilaði töðu, 115 pund. Steindór fór í Bægisá. Eiríkur gekk um. Stungið út úr húsinu út og niður.
- Þorlákur kom, sagði: Það var leitað að manninum í gær og hann fannst við ármótin Öxnadals- og Hörgár, lítið skaddaður. Pabbi fór ofan að Hamri.
- Rósant kom og járnaði Skjóna.
- Snorri[11] á Bægisá kom.
- Sigvaldi[12] kom og Frændi og Árni B.
- Pabbi fór ofan að Rauðalæk. Hreggviður kom.
- Steini var við jarðarför Kristjáns sáluga Þorvaldssonar. Laufey og Svava[13]
- Steindór fór suður að Bægisá. Ég fór út á bæi. Elísabet[14]
- Hreggviður kom um morguninn. Steindór fór suður að Bægisá með „Iðunni“[15] og kaupfélagsfundarboð og kom aftur með Ameríkubréf[16] til ömmu.
[1] Þetta er fyrripartur vísu eftir Stefán Stehpensen amtmann á Hvítárvöllum, reyndar ekki alveg rétt með farinn en hann á að vera svona:
Hvað er það sem bætir bú
svo berst ei út á hauga?
Ragnheiður dóttir hans botnaði:
Góðlynd kona, geðugt hjú
og gætið bóndans auga.
[2] Bjarni Rósantsson (1904-1973), bróðir Þorleifs á Hamri, síðar múrari á Akureyri.
[3] Sigtryggur Sigtryggsson (1890-1972), yfirleitt kallaður Tryggvi, vinnumaður á N-Vindheimum, faðir Maríu áðurnefndrar.
[4] Friðbjörn Jóhannsson (1862-1960), húsmaður í Ási, kona hans var Randíður Júlíana Kristjánsdóttir (1863-1928), þau höfðu áður búið m.a. á Hamri.
[5] Líklega Hallfríður Sigurlín Kristmundsdóttir (1913-2000), dóttir Kristmundar og Kristínar á Miðhálsstöðum og Bægisá, hálfsystir Hreggviðar.
[6] Hugsanlega var Kristmundur með heymæði og gat ekki hirt féð sitt sjálfur.
[7] Þetta orðalag kemur fyrir á fleiri stöðum. Eiríkur átti líklega leið um, fór efri leiðina, kirkjuveginn. Skógafólkið gekk oft um.
[8] Páll Þorlákur Guðmundsson (1892-1929) bóndi í Skriðu. Kona hans var Pálína Friðfinnsdóttir (1895-1926) sem var ekki af Stóragerðisætt.
[9] Kristján Sigurbjörn Þorvaldsson (1895-1921) var vinnumaður á Syðri-Bægisá.
[10] Gísli Friðfinnsson (1888-1969) frá Hátúni, bóndi í Hátúni, síðan á Neðri-Vindheimum, síðast í Glerárþorpi. Gísli var af Stóragerðisættinni, Pálmi afi og hann voru þremenningar.
[11] Snorri Þórðarson (1885-1972) bóndi á Syðri-Bægisá, faðir Steins og afi Snorra Finnlaugssonar sveitarstjóra í Hörgársveit.
[12] Sigvaldi Baldvinsson (1864-1937) bóndi á Neðri-Rauðalæk, faðir Rósants í Ási. Sigvaldi og Baldvin faðir Sverris í Skógum voru systkinasynir. Rósi í Ási og Sverrir í Skógum voru því þremenningar.
[13] Stefanía Svava Stefánsdóttir (1907-1995) systir Eiríks í Skógum, síðar kona Grétars Ó. Fells sem oft flutti erindi í útvarp á árum áður og sem Aðalsteinn á Öxnhóli orti svo fallega um:
Þótt sé ég á sálinni hrelldur
yfir saltlausum graut haframéls
vil ég hann þó helmingi heldur
en hlusta á hann Grétar Ó. Fells.
[14] Elísabet Pálína Haraldsdóttir (1904-1993) á Efri-Rauðalæk, Elísabet á Öxnhóli, kona Aðalsteins skálds og bónda, þau voru foreldrar Huldu á Syðri-Bægisá, Hákonar bónda á Öxnhóli 1962-1964 og Hreiðars bónda á Öxnhóli síðan þá.
[15] Iðunn var tímarit, kom fyrst út 1860. Gefið út til að fræða menn um það sem við hefur borið í heiminum, um ýmsa merkismenn og athafnir þeirra, um löndin, þjóðirnar og náttúruna. Útgefandi Sigurður Gunnarsson.
[16] Þetta Ameríkubréf gæti hafa verið frá Bárði bróður langömmu þar sem hann sendir henni 500 krónur sem var hennar arfshlutur eftir Margréti systur þeirra sem fyrirfór sér í Kanada árið áður. Bréfið gæti líka hafa verið frá Haraldi bróður þeirra sem þá var hjá Lúlla syni sínum. Bæði þessi bréf komu þennan vetur.