Febrúar 1921

Febrúar 1921

  1. Sá sólina í fyrsta sinn í vetur, fyrirboði hlýrri tíma. Dagarnir lengjast. Klippt af þremur hrossum
  2. Hreggi kom
  3. Mamma, Kári og Bára fóru út í Rauðalæk. Hvað er það sem bætir bú svo berist menn ekki í hauga?[1]
  4. Pabbi fór út á bæi.
  5. Bjarni[2] á Hamri, Hreggviður og Tryggvi[3] á Vindheimum komu.
  6. Friðbjörn[4] í Ási kom, pabbi fór suður að Bægisá
  7. Pabbi fór út í Steðja. Lína[5] kom og Kristmundur tvisvar.
  8. Pabbi fór yfir að Skriðu. Steindór gerði úti fyrir Kristmund
  9. Steindór fór í Bægisá
  10. Steindór fór suður í Bægisá.
  11. Kristmundur kom með lyppur og sykur. Steindór gerði úti fyrir hann[6].
  12. Jóhanna fór suður að Syðri-Bægisá.
  13. Steindór fór í kaupstað. Eiríkur[7] gekk um. Ég fór ofan í Rauðalæk. Páll[8] í Skriðu kom og Jósavin.
  14. Friðbjörn kom. Steindór kom heim úr kaupstað.
  15. Þá var stungið út úr ytra húsinu efra. Snorri á Syðri-Bægisá kom og sagði hvarf Kristjáns Þorvaldssonar[9]. Steindór fór út að Vindheimum til að sækja naut. Gísli[10] kom með það aftur. Surtlu var haldið.
  16. Steini var við að leita að Kristjáni í ánni, talið víst að hann hafi drukknað í Öxnadalsánni undan Syðri-Bægisá. Hafa fundist skíðin og taskan hans. Þorlákur kom og sótti svörð. Kristmundur kom.
  17. Þorlákur kom og sótti svörð. Steindór fór yfir að Lönguhlíð. Haraldur kom.
  18. Kristmundur kom, fékk heyjabýtti. Þorlákur kom og skilaði töðu, 115 pund. Steindór fór í Bægisá. Eiríkur gekk um. Stungið út úr húsinu út og niður.
  19. Þorlákur kom, sagði: Það var leitað að manninum í gær og hann fannst við ármótin Öxnadals- og Hörgár, lítið skaddaður. Pabbi fór ofan að Hamri.
  20. Rósant kom og járnaði Skjóna.
  21. Snorri[11] á Bægisá kom.
  22. Sigvaldi[12] kom og Frændi og Árni B.
  23. Pabbi fór ofan að Rauðalæk. Hreggviður kom.
  24. Steini var við jarðarför Kristjáns sáluga Þorvaldssonar. Laufey og Svava[13]
  25. Steindór fór suður að Bægisá. Ég fór út á bæi. Elísabet[14]
  26. Hreggviður kom um morguninn. Steindór fór suður að Bægisá með „Iðunni“[15] og kaupfélagsfundarboð og kom aftur með Ameríkubréf[16] til ömmu.

 

[1] Þetta er fyrripartur vísu eftir Stefán Stehpensen amtmann á Hvítárvöllum, reyndar ekki alveg rétt með farinn en hann á að vera svona:
Hvað er það sem bætir bú
svo berst ei út á hauga?
Ragnheiður dóttir hans botnaði:
Góðlynd kona, geðugt hjú
og gætið bóndans auga.
[2] Bjarni Rósantsson (1904-1973), bróðir Þorleifs á Hamri, síðar múrari á Akureyri.
[3] Sigtryggur Sigtryggsson (1890-1972), yfirleitt kallaður Tryggvi, vinnumaður á N-Vindheimum, faðir Maríu áðurnefndrar.
[4] Friðbjörn Jóhannsson (1862-1960), húsmaður í Ási, kona hans var Randíður Júlíana Kristjánsdóttir (1863-1928), þau höfðu áður búið m.a. á Hamri.
[5] Líklega Hallfríður Sigurlín Kristmundsdóttir (1913-2000), dóttir Kristmundar og Kristínar á Miðhálsstöðum og Bægisá, hálfsystir Hreggviðar.
[6] Hugsanlega var Kristmundur með heymæði og gat ekki hirt féð sitt sjálfur.
[7] Þetta orðalag kemur fyrir á fleiri stöðum. Eiríkur átti líklega leið um, fór efri leiðina, kirkjuveginn. Skógafólkið gekk oft um.
[8] Páll Þorlákur Guðmundsson (1892-1929) bóndi í Skriðu. Kona hans var Pálína Friðfinnsdóttir (1895-1926) sem var ekki af Stóragerðisætt.
[9] Kristján Sigurbjörn Þorvaldsson (1895-1921) var vinnumaður á Syðri-Bægisá.
[10] Gísli Friðfinnsson (1888-1969) frá Hátúni, bóndi í Hátúni, síðan á Neðri-Vindheimum, síðast í Glerárþorpi. Gísli var af Stóragerðisættinni, Pálmi afi og hann voru þremenningar.
[11] Snorri Þórðarson (1885-1972) bóndi á Syðri-Bægisá, faðir Steins og afi Snorra Finnlaugssonar sveitarstjóra í Hörgársveit.
[12] Sigvaldi Baldvinsson (1864-1937) bóndi á Neðri-Rauðalæk, faðir Rósants í Ási. Sigvaldi og Baldvin faðir Sverris í Skógum voru systkinasynir. Rósi í Ási og Sverrir í Skógum voru því þremenningar.
[13] Stefanía Svava Stefánsdóttir (1907-1995) systir Eiríks í Skógum, síðar kona Grétars Ó. Fells sem oft flutti erindi í útvarp á árum áður og sem Aðalsteinn á Öxnhóli orti svo fallega um:
Þótt sé ég á sálinni hrelldur
yfir saltlausum graut haframéls
vil ég hann þó helmingi heldur
en hlusta á hann Grétar Ó. Fells.
[14] Elísabet Pálína Haraldsdóttir (1904-1993) á Efri-Rauðalæk, Elísabet á Öxnhóli, kona Aðalsteins skálds og bónda, þau voru foreldrar Huldu á Syðri-Bægisá, Hákonar bónda á Öxnhóli 1962-1964 og Hreiðars bónda á Öxnhóli síðan þá.
[15] Iðunn var tímarit, kom fyrst út 1860. Gefið út til að fræða menn um það sem við hefur borið í heiminum, um ýmsa merkismenn og athafnir þeirra, um löndin, þjóðirnar og náttúruna. Útgefandi Sigurður Gunnarsson.
[16] Þetta Ameríkubréf gæti hafa verið frá Bárði bróður langömmu þar sem hann sendir henni 500 krónur sem var hennar arfshlutur eftir Margréti systur þeirra sem fyrirfór sér í Kanada árið áður. Bréfið gæti líka hafa verið frá Haraldi bróður þeirra sem þá var hjá Lúlla syni sínum. Bæði þessi bréf komu þennan vetur.