Nú fagnar sigri sveitin öll.
Hún sér hér risna fagra höll
sem á að verða æskuból
og allri menntun skjól.
Og hér skal þjálfa hönd og hug
svo hljóti æskan dáð og dug
að verða samstillt, vökul þjóð,
svo vönduð sterk og fróð.
Við óskum hverri ungri sál
hún eignist hér sín hugðarmál
sem endist langa ævibraut
og efli í hverri þraut.
Og allt sem gott og göfugt er
skal glæðast best og þroskast hér
svo berist héðan bróðurþel
sem byggðin fagni vel.
Og heill þér, skóli, byggðin ber.
Þér blessun færi nemi hver.
Þá alla að þroska auðnist þér
í öllu er manndóm lér.
Þín yfirstjórn og öll þín hjú
séu ávallt þinni hugsjón trú.
Og um þótt leiki veðrin vönd
þig verndi alvalds hönd.